Viðskipti innlent

Ráðherra meðal þeirra sem þáðu boð á nýjan bar Hrefnu Sætran

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Áslaug Arna og Margrét Ríkharðs nutu vel á Uppi bar um helgina.
Áslaug Arna og Margrét Ríkharðs nutu vel á Uppi bar um helgina. @aslaugarna

Hrefna Rósa Sætran hefur opnað nýjan bar í hjarta Reykjavíkur. Barinn ber nafnið Uppi bar og er staðsettur fyrir ofan Fiskmarkaðinn, veitingastaðinn sem hún rekur, í Aðalstræti 12. Gengið er inn vinstra megin við húsið og eina hæð upp.

Mikið var um dýrðir á staðnum um helgina þar sem Hrefna Rósa bauð fræga og fína fólkinu að þiggja drykki og snarl í tilefni opnunarinnar. Vegna samkomutakmarkana var opnunarhelginni skipt niður á kvöld.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýskipaður vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var á meðal þeirra sem þáðu boð Hrefnu. Hún mætti ásamt vinkonu sinni Margréti Ríkharðsdóttur, yfirkokki á Duck and Rose, og birti mynd af þeim á Instagram með kokteila við höndina.

Hið sama gerðu fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason og kokkurinn Helga Gabríela sem létu einnig sjá sig.

Þá heyrðist af fleirum í góðum gír. Þeirra á meðal vinunum Auðunni Blöndal og Sverri Þór Sverrissyni, Elísabetu Gunnarsdóttur á Trendnet, Óskari Þór Axelssyni leikstjóri og Huldu Þórisdóttur prófessor í stjórnmálafræði, systrunum Báru og Hrafnhildi Hólmgeirsdætrum, grafíska hönnuðinum Sigurði Oddssyni ásamt fjölda annarra. 

Uppi bar er í eigu Fiskmarkaðarins og rekið á sömu kennitölu. Hrefna Rósa og Ágúst Reynisson eru eigendur Fiskmarkaðarins á neðri hæðum hússins.

Spennandi verður að sjá hvernig borgarbúar taka á móti nýja barnum. Það vakti meðal annars athygli gesta um helgina að á gæsilegum bar staðarins var að finna risastóra kampavínsflösku og ófáir gestir sem fengu sér bubblur í boði hússins og brostu út að eyrum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×