Viðskipti innlent

Aldrei fleiri í­búðir í fjöl­býli selst yfir á­settu verði

Atli Ísleifsson skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu var greidd leiga að meðaltali 193 þúsund krónur í október.
Á höfuðborgarsvæðinu var greidd leiga að meðaltali 193 þúsund krónur í október. Vísir/Vilhelm

Tæplega 38 prósent þeirra íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem seldust í október, seldust yfir ásettu verði og hetur hlutfallið aldrei mælst jafn hátt áður. Þá var meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu í október tæplega 37 dagar og hefur sölutíminn aldrei mælst styttri.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var í morgun. Um leigumarkaðinn segir að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið greidd leiga að meðaltali 193 þúsund krónur í október, 163 þúsund krónur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og 151 þúsund krónur landsbyggðinni. 

Tólf mánaða breyting á vísitölu leiguverðs á föstu verðlagi hafi lækkað eða staðið í stað í áðurnefndum landshlutum sem bendir til að almennt verðlag hafi hækkað meira en leiguverð.

Mikið bitist um litlar og ódýrar eignir

Í skýrslunni segir að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sé enn með mesta móti. 

„Íbúðum til sölu heldur áfram að fækka, sölutími íbúða er stuttur og hátt hlutfall íbúða selst yfir ásettu verði. Umsvif hafa hins vegar verið að dragast saman en það má einkum rekja til þess að lítið framboð er af íbúðum til sölu. Á höfuðborgarsvæðinu eru nú 626 íbúðir til sölu en þær voru 664 í byrjun nóvember sem gerir nærri 6% samdrátt.

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og annarsstaðar á landsbyggðinni hefur framboð íbúða dregist saman um ríflega 12% á sama tíma. Samtals hefur framboð íbúða minnkað um 68% frá því í maí 2020.

Á höfuðborgarsvæðinu virðist vera mikið bitist um litlar og ódýrar eignir. Nú eru um 17,5% allra íbúða til sölu minni íbúðir, þ.e. 0-2 herbergja, en hlutfallið var nærri 29% í lok janúar. Þá eru minni íbúðir að seljast í meira mæli yfir ásettu verði en hlutfallið var ríflega 40% í október. Þá seldust 8,7% allra íbúða og nærri 11% minni íbúða á yfir 5% meira en ásett verð sem er mun meira en hefur áður tíðkast,“ segir í mánaðarskýrslunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×