Handbolti

Serbar snéru taflinu við og sóttu mikilvæg stig | Risasigur Noregs

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Camilla Herremskoraði sjö mörk fyrir Noreg í kvöld, jafn mörg og andstæðingar kvöldsins.
Camilla Herremskoraði sjö mörk fyrir Noreg í kvöld, jafn mörg og andstæðingar kvöldsins. Maja Hitij/Getty Images

Tveim leikjum var nú rétt í þessu að ljúka í milliriðlum Heimsmeistaramóts kvenna, en leikið var í fyrsta og öðrum riðli. Serbar néru taflinu við gegn Svartfjallalandi og unnu tveggja marka sigur, 27-25, og á sama tíma unnu Norðmenn vægast sagt öruggan sigur gegn Púertó Ríkó, 43-7.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var ekki mikil spenna í leik Noregs og Púertó Ríkó. Norsku stelpurnar skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins, og áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan orðin 10-1. Þegar flautað var til hálfleiks höfðu Norðmenn 18 marka forskot, 21-3.

Norsku stelpurnar tóku fótinn ekki af bensíngjöfinni í seinni hálfleiknum og skoruðu fyrstu tíu mörkin eftir hlé. Fór það svo að lokum að þær norsku unnu afar sannfærandi 36 marka sigur, 43-7.

Noregur er nú í efsta sæti milliriðilsins með sex stig af sex mögulegum, einu stigi meira en Holland sem situr í öðru sæti. Púertó Ríkó situr hins vegar sem fastast á botninum án stiga.

Leikur Serbíu og Svartfjallalands bauð upp á heldur meiri spennu, en Svartfellingarnir höfðu yfirhöndina lengst af. Liðið náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, og þannig var munurinn þegar gengið var til búningsherbergja, 18-14.

Svartfellingar héldu þriggja til fjögurra marka forskoti lengi vel í seinni hálfleik, en í stöðunni 24-21 tóku Serbarnir við sér og skoruðu fjögur mörk í röð og komust yfir í fyrsta skipti í leiknum.

Serbnesku stelpurnar héldu út og unnu að lokum mikilvægan tveggja marka sigur, 27-25.

Serbía er nú í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig, líkt og Frakkar sem sitja í öðru sæti. Frönsku stelpurnar eiga þó leik til góða. Svartfellingar sitja á botni riðilsins án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×