Innherji

Við­skipta­verð­laun Inn­herja 2021: Fortuna Invest, Agnar Tómas Möller og Örn Þor­steins­son til­nefnd í flokknum Spá­maðurinn

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Fortuna Invest, Agnar Tómas Möller hjá Kviku og Örn Þorsteinsson hjá Akta eru tilnefnd í flokknum Spámaðurinn - fyrirtæki eða einstaklingur sem þótt hefur framúrskarandi í mati og skýringum á til dæmis hagkerfinu, fjármagnsmörkuðum, atvinnugeirum og/eða stjórnmálum.
Fortuna Invest, Agnar Tómas Möller hjá Kviku og Örn Þorsteinsson hjá Akta eru tilnefnd í flokknum Spámaðurinn - fyrirtæki eða einstaklingur sem þótt hefur framúrskarandi í mati og skýringum á til dæmis hagkerfinu, fjármagnsmörkuðum, atvinnugeirum og/eða stjórnmálum.

Fortuna Invest, Örn Þorsteinsson hjá Akta og Agnar Tómas Möller hjá Kviku eru öll tilnefnd til Viðskiptaverðlauna Innherja og 1881 í flokknum Spámaðurinn. Þetta er mat dómnefndar Innherja. Verðlaunin verða veitt og úrslit kunngjörð á Fullveldishátíð atvinnulífsins, miðvikudaginn 15. desember næstkomandi.

Dómnefnd Innherja segja konurnar í Fortuna Invest hafa vakið áhuga ungs fólks á fjárfestingum og fjármálum með mun áhrifaríkari hætti en rótgrónum fjármálafyrirtækjum hefur tekist.

Fræðsluvettvangurinn Fortuna Invest fyrir að hafa vakið mikla athygli undanfarin misseri, en þar birta þrjár konur úr fjármálageiranum skýrar og aðgengilegar upplýsingar um fyrstu skrefin í fjárfestingum á samfélagsmiðlum. Nýleg bókaútgáfa um sama efni bætist ofan á auk reglulegra innkomna í fjölmiðla.

„Fyrir að vera óþreytandi í að koma fram og útskýra markaðinn á mannamáli, svo fólk skilji. Ekki skal vanmeta svona framtak. Fortuna Invest á án efa sinn hlut í því, auk annarra, að almenningur hefur tekið við sér í fjárfestingum,” segir í rökstuðningi dómnefndar Innherja.

Að mati dómnefndarinnar eigi Fortuna Invest mikið hrós skilið. „Þær hafa vakið áhuga ungs fólks á fjárfestingum og fjármálum með mun áhrifaríkari hætti en rótgrónum fjármálafyrirtækjum hefur tekist. Þessi Instagram reikningur er einfaldlega gulls ígildi. Þeim tekst að koma skilaboðunum í þannig búning að meira að segja FM957 vilja vikuleg viðtöl. Algjörar neglur!”

Agnar Tómas Möller er lýst af dómnefnd Innherja sem svellköldum álitsgjafa.

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu, fyrir að vera óhræddur við að stíga fram í opinberri umræðu og ræða stöðuna á mörkuðum „umbúðalaust,” líkt og fram kom í rökstuðningi dómnefndar Innherja.

„Agnar hefur það framyfir marga af okkur kollegum hans að hann hlífir sér ekki við því að stíga inn í og leiðrétta eða rétta af umræðu sem komin er á villigötur - hvort sem það er gert á samfélagsmiðlum eða með greinaskrifum í hefðbundnari fjölmiðla,” er haft eftir dómnefndarmanni Innherja. „Það sem hann segir hefur raunverulegt upplýsingagildi fyrir efnahagslífið og fjármálamarkaði. Hann tjáir sig á dýptina.”

Að mati dómnefndarinnar hefur Agnar verið ótrauður við að gagnrýna það sem miður fer, hvort sem sú gagnrýni snýr að einkageiranum eða hinu opinbera. „Agnar er einfaldlega svellkaldur og það er akkur fyrir viðskiptalífið að hann hafi fyrir því að tjá sig og hafa sig frammi."

Örn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi Akta sjóða, hefur náð eftirtektarverðum árangri ásamt starfsmönnum sínum í að byggja upp gríðarlega verðmætt fyrirtæki úr litlu á örfáum árum.

„Örn hefur skilað framúrskarandi ávöxtun fyrir sjóðsfélaga og sjálfan sig með því að greina og spá rétt fyrir hvernig markaðurinn er að hreyfast hverju sinni,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar Innherja.

Eignir í stýringu Akta hafa liðlega fjórfaldast á minna en tveimur árum og námu um 60 milljörðum um mitt þetta ár. Útlit er fyrir að sumir sjóða félagsins, sem er stýrt af Erni, muni annað árið í röð skila sjóðsfélögum sínum hátt í 100 prósenta ávöxtun.

„Þetta hefur verið mögnuð vegferð hjá Erni og Akta sjóðum. Hann er búinn safna í kringum sig hæfileikaríku fólki og bara svo með´etta í þessum sjóðastýringarbransa. Allir vildu fara til Akta undir lok síðasta árs og byrjun þessa. Þetta er hans aðaláhugamál í lífinu og það gerir hann að trúverðugum sjóðstjóra,“ að mati eins dómnefndarmanns Innherja.

Á Fullveldishátíð atvinnulífsins þann 15. desember næstkomandi verða Viðskipti ársins 2021 útnefnd auk Viðskiptamanns ársins. Þá verða veitt sérstök Heiðursverðlaun íslensks atvinnulífs. 

Þá verða verðlaun veitt í eftirfarandi flokkum en tilnefningar má nálgast á síðum Innherja og neðar í fréttinni:

Kaupmaðurinn

Fyrirtæki eða einstaklingur sem vakið hefur athugli í rekstri og viðskiptum með vörur til einstaklinga og fyrirtækja.

Tækniundrið

Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir nýja tækni, tæknivæðingu, tækniforrit og/eða tækniþjónustu.

Spámaðurinn

Fyrirtæki eða einstaklingur sem þótt hefur framúrskarandi í mati og skýringum á til dæmis hagkerfinu, fjármagnsmörkuðum, atvinnugeirum og/eða stjórnmálum.

Rokkstjarnan

Bjartasta vonin í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki sem vakið hefur athygli og þykir líklegt til þess að vaxa og ná árangri.

Samfélagsstjarnan

Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir framlag til samfélagsins í formi stuðnings við til dæmis góðgerðarmál, jafnréttismál, íþrótta- og tómstundaiðkun, umhverfismál og þess háttar.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×