Innherji

Vogunarsjóðir Akta skilað nærri 200 prósenta ávöxtun á einu ári

Hörður Ægisson skrifar
Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði á síðustu misserum.
Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði á síðustu misserum. VÍSIR/VILHELM

Tveir vogunarsjóðir í rekstri Akta, sem hafa fjárfestingarheimildir til að gíra skort- eða gnóttstöður sínar í skuldabréfum og hlutabréfum margfalt, hafa skilað sjóðsfélögum sínum nálægt 200 prósenta ávöxtun á undanförnum tólf mánuðum.

Það er næstum fjórfalt meiri ávöxtun ef litið er til samanburðar á hækkun úrvalsvísitölu Kauphallarinnar, sem nemur um 53 prósent yfir sama tímabil, en miklar gengishækkanir hafa einkennt hlutabréfamarkaðinn hér heima frá því um haustið 2020.

Samkvæmt upplýsingablaði Akta HL1 til sjóðsfélaga 3. nóvember síðastliðinn, sem Innherji hefur undir höndum, nam ávöxtun sjóðsins á fyrstu tíu mánuðum ársins 2021 tæplega 87 prósent, en hann fjárfestir í íslenskum hlutabréfum. Á einu ári, eða frá því í byrjun nóvember 2020, hefur sjóðurinn hins vegar skilað um 195 prósenta ávöxtun en hann er um sex milljarðar króna að stærð og hefur vaxið ört síðustu misseri.

Þá var ávöxtun vogunarsjóðsins Akta HS1, sem fjárfestir bæði í innlendum hlutabréfum og skuldabréfum, litlu minni og hækkaði gengi sjóðsins um nærri 81 prósent á fyrstu tíu mánuðum ársins. Á tímabilinu frá nóvember 2020 til loka október á þessu ári hefur sjóðurinn, sem er 8,2 milljarðar króna að stærð, skilað sjóðsfélögum sínum um 176 prósenta ávöxtun, samkvæmt nýlegu upplýsingablaði sem Innherji hefur undir höndum.

Vogunarsjóðunum er stýrt af Erni Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Akta, og Fannari Jónssyni sjóðsstjóra.

Á árinu 2020 var hagnaður Akta eftir skatta 747 milljónir króna og nítjánfaldaðist hann á milli ára. Á fyrri árshelmingi þessa árs skilaði sjóðastýringarfyrirtækið hagnaði upp á 1.322 milljónir hefur því hagnast um meira en tvo milljarða á aðeins átján mánuðum. Stærsti hluthafi Akta, með um 45 prósenta hlut, er félag í eigu Arnar en þar á eftir er Kvika með 19 prósent. Aðrir starfsmenn Akta, fimm talsins, eiga minna en tíu prósenta hlut hver um sig.

Örn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Akta, er stærsti hluthafi félagsins með 45 prósenta hlut.

Vogunarsjóðir standa einungis fagfjárfestum til boða vegna þess hversu áhættusöm fjárfesting í slíkum sjóðum getur verið. Slíkir sjóðir hafa ríkari heimildir en hefðbundnir verðbréfasjóðir til lántöku – stundum nefnd gírun – og nýta sér afleiður, meðal annars valréttarsamninga og framvirka samninga, til að skortselja ákveðna hlutabréfa- eða skuldabréfaflokka, sem og að taka gíraða gnóttstöðu. Sjóðirnir miða árangur sinn við tilteknar vísitölur á markaði og yfirleitt nemur þóknun þeirra sem stýra þeim 20 prósentum umfram það viðmið.

Á síðasta ári skiluðu bæði Akta HS1 og HL1 yfir 90 prósenta ávöxtun sem var umtalsvert betri árangur en hjá öðrum íslenskum vogunarsjóðum en næst á eftir kom sjóðurinn Algildi sem var með um 43 prósenta ávöxtun. Góða afkomu HL1 og HS1 í fyrra mátti ekki síst þakka veðmáli þeirra á hlutafjárútboð Icelandair Group, þar sem sjóðirnir tóku drjúga stöðu, en hlutabréfaverð flugfélagsins hækkaði um liðlega 70 prósent á síðustu tveimur mánuðum ársins og seldu Akta sjóðirnir alla stöðu sína í fyrirtækinu á skömmum tíma.

Úr upplýsingingablaði til sjóðsfélaga Akta HL1 og HS1 í byrjun þessa mánaðar.

Auk þess að hafa hagnast mikið á fjárfestingu í Icelandair höfðu vogunarsjóðir Akta byggt upp drjúga stöðu í Kviku banka og TM þegar hlutabréfaverð félaganna tók að hækka mikið eftir að tilkynnt var um samruna þeirra í lok september í fyrra. Þá tímasettu sjóðir Akta vel kaup í fasteignafélögum síðla árs 2020, en gengi þeirra hækkaði mikið – hlutabréfaverð Regins og Reita rauk upp um liðlega 40 og 60 prósent í nóvember og desember – þegar jákvæðar fregnir af bóluefni juku mjög bjartsýni fjárfesta á hlutabréfamarkaði. Sama á við um Eimskip, þar sem Akta var með myndarlega stöðu þegar hlutabréfaverð félagsins var hvað lægst í október 2020, en gengi bréfa þess tvöfaldaðist á fjórða ársfjórðungi og hélt áfram að hækka á árinu 2021.

Á þessu ári hafa sjóðir Akta – HL1, HS1 ásamt opna hlutabréfasjóðnum Akta Stokkur – meðal annars komið að stofnun hlutfélagsins Play þar sem þeir voru í hópi leiðandi fjárfesta í lokuðu 6 milljarða hlutafjárútboði sem kláraðist í apríl. Akta er í dag stærsti einstaki hluthafi Play, sem var skráð á markað fyrr í sumar, með nálægt 11 prósenta hlut sem er metinn á um 1.900 milljónir króna. Þá hafa sjóðir Akta á síðustu vikum meðal annars verið að auka við hlut sinn í Origo, Sýn og VÍS og fara með samanlagt meira en 5 prósenta hlut í öllum þessum félögum.

Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði á síðustu misserum samhliða því að fjárfestar hafa í auknum mæli verið færa sig yfir í áhættusamari eignir á borð við hlutabréf. Þannig hefur verið stöðugt hreint innflæði í hlutabréfasjóði og blandaða sjóði í vel á annað ár en frá áramótum nemur það meira en 50 milljörðum króna. Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs jókst velta á hlutabréfamarkaði um 89 prósent frá sama tímabili árið áður.

Um mitt þetta ár var Akta með 11 sjóði í rekstri og nam hrein eign þeirra tæplega 58 milljörðum borið saman við 33 milljarða í árslok 2020 og rúmlega 16 milljarða í lok ársins 2019.

Fréttin var uppfærð kl: 7:50.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.