Umræðan

Skyldurækni gagnvart heimamarkaðinum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2012 steig Barack Obama, sem sóttist þá eftir endurkjöri, upp á svið í Virginíuríki og flutti ræðu sem átti eftir að lita kosningabaráttuna.

Forsetinn færði rök fyrir því að auðmenn hefðu ekki efnast algjörlega upp á eigin spýtur. „Þú byggðir þetta ekki,“ sagði Obama en þar vísaði hann til vega og brúa sem bandaríska ríkið hefur lagt og launafólk keyrir um til að komast til vinnu. Þess vegna væri réttlætanlegt, að mati forsetans, að krefja auðmenn um að leggja meira af mörkum til samneyslunnar. Mótframbjóðandinn Mitt Romney vitnaði ítrekað í orð forsetans og sagði þau til marks um lítilsvirðingu gagnvart fyrirtækjaeigendum af öllum toga. Á endanum hafði Obama betur.

Ummæli forsetans fólu í sér sannleikskorn. Ævintýralegur árangur í viðskiptum verður ekki til í tómarúmi. Hann er háður stofnunum og innviðum sem aðrir hafa byggt upp. Ólíklegt er að Marel hefði vaxið eins og raun ber vitni ef ekki væri fyrir öflugan sjávarútveg á Íslandi. Og stoðtækjaframleiðandinn Össur væri ekki þar sem hann er í dag ef hann hefði ekki getað sótt fjármagn á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Forstjóri Össurar lýsti því þannig að félagið hefði verið smátt í sniðum þegar það var skráð á markað árið 1999. Skráningin hefði gegnt „veigamiklu hlutverki í vexti Össurar úr litlu stoðtækjafyrirtæki í leiðandi félag á heimsvísu.“ Þetta var tilvitnun sem fylgdi með tilkynningu um að hlutabréf Össurar yrðu tekin úr viðskiptum í Kauphöll Íslands. Eftir afskráningu Össurar árið 2017 nutu hluthafar góðs af meiri seljanleika bréfanna á dönskum hlutabréfamarkaði en heimamarkaðurinn varð fátæklegri fyrir vikið. 

Kauphöllin færðist kannski skrefi fjær því að vera stökkpallur fyrir vaxtarfyrirtæki eins og Össur var árið 1999.

Kauphöllin er ekki einungis valkostur við fjármögnun fyrirtækja og ávöxtun á sparnaði. Hún er tæki til að samtvinna hagsmuni fólks og fyrirtækja, og stuðla þannig að almennri sátt um markaðshagkerfið. Rekstur fyrirtækja verður gegnsærri og í meiri nánd við almenning sem gefst færi á því að fá hlutdeild í verðmætasköpun ólíkra atvinnuvega. Kall samtímans um dreifðara eignarhald í sjávarútvegi var ein ástæðunum á bak við skráningu Síldarvinnslunnar í vor að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar. Hann sagði skráninguna vera tilraun til að ná meiri sátt um greinina.

Af þessum ástæðum er erfitt að skilja hvers vegna íslensk sjóeldisfyrirtæki, sem eru að stórum hluta í erlendri eigu og glíma við ímyndarvanda sem óþarfi er að rekja í þessum pistli, ákváðu að skrá hlutabréfin alfarið á norskum hlutabréfamörkuðum. Þá er útlit fyrir að sum af efnilegustu vaxtarfyrirtækjum landsins, til dæmis Kerecis, verði einungis skráð á erlendum hlutabréfamörkuðum. Alvotech ætlar þó að ganga fram með góðu fordæmi en íslenska líftæknifyrirtækið undirbýr nú tvískráningu, annars vegar í Bandaríkjunum og hins vegar Íslandi í byrjun næsta árs.

Skráning á íslenskum hlutabréfamarkaði snýst í grundvallaratriðum um samfélagslega ábyrgð. Hún snýst um að taka þátt í uppbyggingu á markaði sem fjármagnar atvinnurekstur og nýsköpun, og um það að gera markaðshagkerfið hrífandi frekar en fráhrindandi. Samfélagsleg ábyrgð af þessu tagi skiptir meira máli en kortlagning á pappírsnotkun eða jafnlaunavottanir.

Hinn valkosturinn er að vanrækja skylduna gagnvart heimamarkaðinum til að sækja hverja einustu krónu fyrir hluthafa.

Höfundur er blaðamaður á InnherjaAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.