Innherji

Ætla að sækja allt að 10 milljarða fyrir skráningu í Svíþjóð eða Bandaríkjunum

Hörður Ægisson skrifar
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, áætlanir stjórnar gera ráð fyrir að fyrirtækið verði metið á meira en 80 milljarða króna við skráningu á markað snemma á næsta ári.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, áætlanir stjórnar gera ráð fyrir að fyrirtækið verði metið á meira en 80 milljarða króna við skráningu á markað snemma á næsta ári. Kerecis

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis vinnur nú að því að sækja sér samtals um 40 til 80 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5 til rúmlega 10 milljarða íslenskra króna, í nýtt hlutafé í tengslum við áform félagsins um skráningu á hlutabréfamarkað í Svíþjóð eða Bandaríkjunum snemma á næsta ári.

Við skráningu Kerecis á markað er áætlað að heildarvirði félagsins verði yfir 600 milljónir dala, eða að lágmarki tæplega 80 milljarða króna. Gangi það eftir hefur markaðsvirði Kerecis þá hækkað um sexfalt á minna en þremur árum árum en þegar fyrirtækið sótti sér síðast nýtt hlutafé 2019 var það metið á um 105 milljónir dala.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bréfi sem var komið á hluthafa Kerecis í byrjun síðustu viku og Innherji hefur undir höndum. Var bréfið sent í aðdraganda fjárfestafundar sem fór fram föstudaginn 3. desember síðastliðinn en tilefni hans var að upplýsa hluthafa um framtíðaráætlanir og væntanlega hlutafjáraukningu vegna áforma um að fara með félagið á hlutabréfamarkað.

Kerecis, sem er með höfuðstöðvar sínar á Ísafirði, framleiðir afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjöl­ómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Á síðasta fjárhagsári Kerecis, sem lauk í september á þessu ári, námu tekjur félagsins um 29 milljónum dala og jukust um liðlega 70 prósent en tap fyrirtækisins var 500 þúsund dalir. Á þessu fjárhagsári er hins vegar gert ráð fyrir að tekjurnar vaxi enn frekar og verði um 50 milljónir dala þótt tapið muni aukast á milli ára vegna meiri markaðskostnaðar.

Í bréfinu til hluthafa segir að stjórn Kerecis, sem er leidd af Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnanda og jafnframt forstjóra félagsins, sé um þessar mundir að skoða þann möguleika að skrá félagið annaðhvort í Nasdaq kauphöllina í Svíþjóð eða í Bandaríkjunum, en verði af skráningu vestanhafs gæti hún orðið með beinum hætti eða í gegnum samruna við skráð félag þar í landi. Tekið er fram að stjórnin muni taka ákvörðun um hvaða leið verði valin á næstu vikum og gangi áætlanir eftir gæti skráning fyrirtækisins orðið að veruleika snemma á næsta ári.

Höfuðstöðvar Kerecis eru á Ísafirði.

Greint var frá því í Viðskiptablaðinu um miðjan síðasta mánuð að Kerecis ætti í viðræðum um kaup á skráðu bandarísku félagi í heilbrigðisgeiranum. Ef þau myndu ganga eftir yrði um að ræða milljarða viðskipti og jafnframt þau stærstu í sögu Kerecis. Þá væri einnig til skoðunar að skrá fyrirtækið á markað, þar sem einkum væri horft til Svíþjóðar.

Bjóða stofnanafjárfestum að kaupa á afslætti fyrir skráningu

Fram kemur í bréfinu til hluthafa Kerecis að samtímis örum vexti hafi stjórn félagsins verið að kanna ýmsa valkosti við það að breyta rekstrarformi þess og gera það að almenningshlutafélagi. Markmiðið með skráningu í kauphöll sé meðal annars að bæta aðgengi þess að fjármagni til að styðja við frekari vöxt, auka seljanleika með bréf í félaginu og auka virði þeirra fyrir hluthafa. Með skráningu Kerecis á skipulegan verðbréfamarkað geti félagið einnig notað hlutabréf þess sem gjaldmiðil við möguleg kaupa á öðrum fyrirtækjum og nýjum tæknilausnum.

Í aðdraganda skráningar Kerecis er stefnt að því að bjóða tilteknum stofnanafjárfestum, og eins núverandi hluthöfum, að kaupa hluta að því nýja hlutafé sem félagið hyggst afla sér – að lágmarki 20 milljónir dala – áður en það fer á hlutabréfamarkað. Sá hluti fjármögnunarinnar verður seldur á lítillega hagstæðara verði en sem nemur áætluðu markaðsvirði Kerecis við skráningu en fram kemur í bréfinu að fjármálaráðgjafar félagsins telji að afslátturinn kunni að nema 10 til 20 prósentum.

Á undanförnum misserum og árum hefur Kerecis lagt megináherslu á beina sölu í Bandaríkjunum og hefur fótfesta félagsins á þeim markaði styrkst ört. Fyrirtækið er nú með um samtals um 150 sölumenn, að langstærstum hluta vestanhafs, en einnig í Þýskalandi. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að vera með meira en 200 sölumenn fyrir lok næsta fjárhagsárs í september 2022.

Stökkpallur Kerecis á Bandaríkjamarkað kom þegar fyrirtækið fékk markaðsleyfi hjá FDA, Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, og í kjölfarið skráningu sáraroðs Kerecis hjá Medicare, tryggingafélagi í eigu bandaríska ríkisins. Á þessu ári hefur Kerecis fengið til viðbótar markaðsleyfi hjá FDA fyrir þrjár aðrar vörur sem fyrirtækið hefur þróað.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, hefur setið í stjórn Kerecis í meira en tvö ár.Stöð 2/Arnar

Ólafur Ragnar á meðal stjórnarmanna Kerecis

Á meðal þeirra sem bættust við hluthafahóp Kerecis á árinu 2019 voru samtökin Emerson Collective, sem voru stofnuð af Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, stofnanda Apple, en þau breyttu kröfum sínum í hlutafé fyrir milljónir og settu jafnframt inn nýtt fjármagn í félagið. Er Emerson Collective nú á meðal stærstu hluthafa Kerecis. Þá kom Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, jafnframt nýr inn í stjórn Kerecis sama ár.

Aðrir helstu hluthafar Kerecis eru félög í eigu Guðmundar Fertrams, eignarhaldsfélagið Omega sem er í eigu fjárfestanna Birgis Más Ragnarssonar og Andra Sveinssonar, og franska fyrirtækið CuraeLab.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Ernst & Young velur Guðmund Fertram einn af frumkvöðlum ársins

Ernst & Young í Bandaríkjunum hefur útnefnt Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra Kerecis, sem einn af ellefu frumkvöðlum ársins 2021 í Mið-Atlantshafsflokknum. Verðlaunin eru á meðal þeirra stærstu sem í boði eru fyrir frumkvöðlastörf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.