Viðskipti innlent

Kerecis tryggt sér þrjá milljarða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Starfsmenn Kerecis að störfum á Ísafirði.
Starfsmenn Kerecis að störfum á Ísafirði. kerecis

Lækningavörufyrirtækið Kercis segist hafa tryggt sér 3 milljarða króna lánsfjármögnun. Henni er ætlað að fjármagna veltufjárþörf fyrirtæksins og segir stofnandi Kerecis að innspýtingin muni styðja við frekari vöxt í Bandaríkjunum, þar sem stærsta markað fyrir vörur þess sé að finna.

Kerecis er lækningafyrirtæki sem vinnur stoðefni og önnur efni úr roði. Stoðefnin eru búin til úr húð eða öðrum vefjabútum með því að fjarlægja allar frumur og öll ofnæmisvaldandi efni þannig að eftir stendur stoðgrind búin til úr millifrumuefni. Kerecis hefur þróað og verndað með einkaleyfum tækni til að búa til stoðefni úr roði.

Í orðsendingu frá fyrirtækinu segir að bandaríski bankinn Silicon Valley Bank láni félaginu allt að 2,2 milljarða króna í formi ádráttarláns (e. revolving credit) og að auki taki fyrirtækið 800 milljón króna lán, sem að stærstum hluta sé lán frá hluthöfum með breytirétti.

Þessi lánsfjármögnun komi í kjölfar 2,2 milljarða dala hlutafjáraukningar „C“ sem fyrirtækið tilkynnti um í byrjun árs 2019. Einn þriðji hluti þeirrar upphæðar var skuldbreyting á breytiréttarlánum og tveir þriðju fjárfesting með reiðufé.

90 prósent tekna frá Bandaríkjunum

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og stjórnarformaður Kerecis, lætur hafa eftir sér í orðsendingunni að áfram aukist eftirspurnin í sáraroð fyrirtækisins og því hafi fyrrnefnd veltufjárþörf aukist.

„Þessi 3 milljarða króna lánsfjármögnun tryggir okkur veltufé fyrir næstu misseri og gerir okkur kleift að halda áfram að stækka fyrirtækið hratt og koma sáraroðinu til fleiri og fleiri sjúklinga í Bandaríkjunum þar sem megin-markaður okkar er,” segir Guðmundur.

Yfir 90 prósent af tekjum Kerecis koma af Bandaríkjamarkaði en vörur þess eru engu að síður markaðssettar víða um heim. Þær eru í dag einkum notaðar til að meðhöndla þrálát sár, t.d. sykursýkissár, bráðaáverka og í skurðstofuaðgerðum





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×