Frítíminn

Eftirbragð sem varir lengur en trúin á eilíft líf

Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson skrifar
Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson.
Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson. VÍSIR/VILHELM

Þeir sem segja að peningar kaupi ekki hamingju, hafa einfaldlega ekki keypt sér hús á Ítalíu. Fótgönguliðar á vegum Sante lögðu nýlega land undir fót í leit að áhugaverðum vínum í Piemonte. Um héraðið má reyndar segja að þar er ansi margt áhugavert að finna fleira en vín því héðan koma frægustu trufflusveppir veraldar, oftar kenndir við bæinn Alba.

Frægustu vín svæðisins eru frá svæði sem kallast Barolo sem jafnframt dregur nafn sitt af samnefndum bæ auk Barbaresco.

Það fyrsta sem tekið er eftir er að svæðið er nokkuð fjalllent og því augljóst að ekki njóta allar ekrur sömu afstöðu til sólar auk þess sem jarðvegurinn er ekki einsleitur. Með ákveðinni einföldun má segja að ef jarðlög eru rík af kalsíum karbónati með hvít/gráum bláma verði vínið kröftugt á meðan að rauðleitari og leirblandaðri jarðvegur geti af sér einfaldari vín. Líklega liggur smekkur okkar einhversstaðar þarna á milli auk þess sem við viljum gjarnan hafa tannín (stama efnið í hýðinu) í senn mjúk og í lágmarki.

Í Barolo má finna vínsafn með ýmsum áhugaverðum fróðleik, allt frá forsögulegum tímum en vín virðist löngum hafa verið í uppáhaldi hjá stjórnlyndum leiðtogum sem gjarnan glæpavæddu hvers kyns lesti þegna sinna. Þannig var tiltekið í lögum Hammúrabis að ef þerna blandaði ranglega vatni við vín skyldi hæfileg refsing vera drekking. Á 2. öld fyrir krist má segja að hið margrómaða hugtak hjarðheilsa hafi tekið að festa sig í sessi þegar Rómverjar settu í lög að dauðadómur væri við áfengisneyslu kvenna.

Upphaf 20 aldar var líklega versta tímabil vínmenningar í heiminum. Margir af bestu mörkuðum fyrir gæðavín voru nánast sprengdir í loft upp auk þess sem rótarlúsin Phylloxera lagði undir sig flest víngerðarsvæði Evrópu. Algert áfengisbann var sett á í Bandaríkjunum 1920 en þá sem nú var mikil eftirspurn eftir einföldum lausnum á flóknum vandamálum. Á Íslandi var svo stofnað til einokunarverslunar með áfengi og stendur sá óyndisrekstur enn þrátt fyrir að landsmönnum standi nú til boða vandaðri og hagkvæmari netverslun.

Einn af litríkari framleiðendum svæðisins er Mascarello sem staðsett er í þorpinu Morra. Þar tekur á móti okkur Maria-Teresa Mascarello sem nú stýrir hér víngerðinni í anda föður síns sem var mikill íhaldsmaður að því er víngerð varðar. Nútímavíngerð í héraðinu er að ýmsu leyti frábrugðin með styttri gerjunartíma og án tunnugeymslu sem sá gamli fyrirleit eins og Silvio Berlusconi og boðaði ,,no barriques - no Berlusconi”

Aðalvín hússins er Barolo sem gert er úr þremur ekrum Cannubi, San Lorenzo, Rue, & Rocche del Annunziata en að auki eru einfaldari vín Dolcetto og Barbera.

Alls eru hér framleiddar um 35.000 flöskur, biðlistinn langur og eftirmarkaðsverð í beinu framhaldi hátt.

En eins og áður sagði er hugtakið verðgildi okkur ofarlega í huga við val á vínum enda samfélagslega ábyrgt að vanda val á alþýðuvínum fyrir hinar vinnandi stéttir á Íslandi eins og Drífa Snædal er einmitt óþreytandi að minnast á. Það var því einkar ánægjulegt að taka hús hjá Michele og systur hans Sabina Reverdito rétt við bæinn La Morra. Michele leggur áherslu á að hann sé nú ekki merkilegur víngerðarmaður en leggi þess í stað allt upp úr vínræktuninni án kemískra efna og vilji sem minnst inngrip til að vínin miðli sínum uppruna að fullu. 

Fyrsta vínið sem við smökkum kemur frá Verduno í norð-vestur hluta Piemonte og er úr Pelaverga þrúgu sem við höfum aldrei heyrt um, hvað þá bragðað en líkist einna helst Pinot Noir með frábærum hvít Penja pipar tón frá Cameroun úr Hýalín. Hér er það hinn einfaldi ljúffengleiki auk þess sem vínið tifar létt eins og lindarlækur um máða steina. Virkar kannski ekki gegn nýjustu Omicron útgáfunni en slær allavega á versta þunglyndið við tilhugsunina. 

Næsta vín er svo Barbera d’Alba öllu þróttmeira en þó svo að komið sé í ung Barolo vín má segja að hússtíllinn hér, fínlegheit og fágun skíni í gegn nú þegar og ekki þörf á að bíða í áratug. Að jafnaði má segja um eftirbragðið að það varir lengur en trúin á eilíft líf.

Eigendur Santé eru annálaðir nautnaseggir. Þeir verða með óreglulegar innkomur á Innherja þar sem þeir munu fjalla sérstaklega um vín og mat.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Fréttabréf Santé: Fljótandi gull

Sauternes er franskt sætvín frá samnefndu svæði í Bordeaux. Barsac er nærliggjandi þorp en vín þaðan má kenna við Sauternes úr Sémillon, Sauvignon Blanc og Muscadelle þrúgum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.