Innherji

Fréttabréf Santé: Fegurðin að utan?

Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson skrifa
Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson
Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson Vísir/Vilhelm

Ekki hefur enn tekist að færa sönnur á uppruna eða eðli fegurðar, hvort hún komi að utan eða innan.

Nýlega opnaði afar glæsilegt erlent hótel, Marriott Edition, dyrnar fyrir vel hæluðum gestum sem er auðvitað stærsta einstaka frétt ársins tengt ferðaiðnaðinum hér á Íslandi. Alls rekur keðjan um 7.000 hótel um víða veröld sem hefur að markmiði að gestir geti ,,nuddað öxlum við innfædda”. Sú stefna gengur svo út á að laða innfædda að gisti- og veitingaþjónustu hótelanna en að auki er svo næturklúbbur í kjallara hótelsins. 

Óhætt er að segja að hótelið setji ný viðmið því varla er glæsilegri gisting í boði en þegar þetta er skrifað kostar nóttin á bilinu 46.000-112.000 sem er í raun ekki mikið miðað við verðlag erlendis á sambærilegum hótelum. 

Mörgum hefur hinsvegar svelgst á þegar kemur að verði veitinga en sem dæmi þá kostar kampavínsglasið kr. 4.600.
Marriott Edition Reykjavík.

En stundum stendur fegurðin nærri. Í vikunni enduropna tveir af geðþekkustu veitingamönnum landsins, Stefán Melsted (sem gerði garðinn frægann á Snaps) og Jón Mýrdal, smurbrauðstaðinn Kastrup sem naut mikillar hylli í Ingólfsstræti (þar sem nú er Hósiló). 

Húsnæðið vinnur líklega ekki til neinna hönnunarverðlauna, hrátt en hlýlegt eins og veitingamennirnir. 

Hér er það danskt smurbrauð auk þess sem vert er að minnast á frábært vínúrval á afar hóflegu verði en sem dæmi kostar kampavínsglasið kr. 1.800. Að öðrum ólöstuðum réttum er vert að minnast á ,,Sneið til auðmanna” með humarsalati og slettu af styrjuhrognum, réttur sem vissulega gæti staðið í Sólveigu Önnu og Drífu en gæti höfðað vel til andlegs leiðtoga þeirra Gunnar Smára sem er jú annálaður sælkeri.

Sneið til auðmanna af veitingastaðnum Kastrup.
Stefán Melsted og Jón Mýrdal bjóða upp á smurbrauð að dönskum sið á Kastrup.

Eigendur Santé eru annálaðir nautnaseggir. Þeir verða með óreglulegar innkomur á Innherja þar sem þeir munu fjalla sérstaklega um vín og mat.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.