Innherji

SA segja lykilmálum verið gleymt í stjórnarsáttmála

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Málin sem gleymdust í nýundirrituðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að mati Samtaka atvinnulífsins eru skýrari áherslur á lækkun skulda og forgangsröðun ríkisútgjalda. Þá hafi farist fyrir að ræða sjálfbærni bótakerfanna í sáttmálanum. Loforð um skattalækkanir séu óljós.

Að mati SA er jákvætt að leggja eigi aukna áherslu á viðbrögð við öldrun þjóðarinnar, til að mynda í lífeyrismálum og í þjónustu við aldraða, en brýnt sé að horfa til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í bótakerfunum. Vöxturinn hafi þegar verið orðinn mikill fyrir heimsfaraldur. Þar sem málaflokkurinn standi nú fyrir um fjórðungi ríkisútgjalda sé mikilvægt að tryggja sjálfbærni þessara tilfærslukerfa. 

Ræða þurfi tímabil og tekjutengingu atvinnuleysisbóta á sama tíma og ekki tekst að manna störf.

SA telja loforð um skattalækkanir óljós. Ekki sé tilgreint sérstaklega hvernig skapa eigi svigrúm í ríkisrekstri til þess að lækka skatta. Sagan sýni að það svigrúm sem skapist í ríkisrekstri með auknum hagvexti sé iðulega nýtt til varanlegrar útgjaldaaukningar. Endurskoða ætti fjármálareglur með tilliti til þessa.

Leggja til að salan á Íslandsbanka verði nýtt til að greiða niður skuldir

Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að vaxtagjöld ríkisins aukist frekar. Eru þau orðin fimmti stærstu útgjaldaliður ríkissjóðs. SA meta það brýnt að lækka skuldir og leggja til að nýta söluafrakstur af eignarhluta ríkissjóðs í fjármálakerfinu til niðurgreiðslu skulda.

Þá leggja SA áherslu á að stjórnvöld setji kraft í að meta gæði og tilgang opinberra útgjalda. Til þess leggja þau til að stuðst verði við alþjóðlega aðferðarfræði við endurmat útgjalda og hönnun gagnlegra mælikvarða sem meti árangur fyrir mismunandi málaflokka. Slík tól séu mikilvæg til forgangsröðunar í ríkisrekstri og forsenda þess að skapað verði svigrúm til skattalækkana.

Jákvætt að áhersla sé lögð á vinnumarkaðinn í sáttmálanum

SA lýsa yfir ánægju með að sérstök áhersla sé lögð á að bæta vinnubrögð og auka skilvirkni við gerð kjarasamninga í stjórnarsáttmálanum, meðal annars með því að efla hlutverk ríkissáttasemjara og koma á fót standandi gerðardómi.

Að mati SA sé kjarasamningagerð á Íslandi einkar óskilvirk í samanburði við hin Norðurlöndin.

Heimild: SA

Þá fagna samtökin áherslum stjórnarinnar á að einfalda regluverk, stytta biðlista eftir heilbrigðisþjónustu, á skynsamleg orkuskipti og áframhaldandi stuðningi við innviði og nýsköpun.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.