Í tölvupósti sem Musk sendi nýverið á starfsmenn SpaceX sagði hann framleiðsluvanda varðandi Raptor-eldflaugarhreyflana gífurlega alvarlegan fyrir fyrirtækið.
Raptor-hreyflarnir eiga að knýja Starship-geimskipið sem starfsmenn SpaceX hafa verið að þróa í Texas. Geimskipið á að flytja menn og birgðir til tunglsins og lengra út í sólkerfið.
Starship á einnig að nota til að koma annarrar kynslóðar Starlink-netgervihnöttum á braut um jörðu, þar sem Falcon-eldflaugarnar duga ekki til þess. Vegna þess að nýju gervihnettirnir eru mun stærri en þeir eldri.
Space Explored kom höndum yfir póst Musks en í honum sagði hann að vandamálið væri mun stærra en það var fyrir nokkrum vikum. Póstinn sendi hann fyrir þakkagjörðarhátíðina um síðustu helgi og biðlaði til starfsmanna sinna um að hætta við frí sín og mæta til vinnu.
Það væri nauðsynlegt vegna þessa hörmulega ástands.

Forsvarsmenn SpaceX vilja framleiða tvo Raptor-hreyfla á viku. Það sé nauðsynlegt svo hægt sé að fljúga nægilega mörgum Starship-geimförum þegar þróun þeirra lýkur. Sérstaklega varðandi Starlink-gervihnettina en Musk sagði aðra kynslóð þeirra mun hagkvæmari fjárhagslega séð fyrir fyrirtækið.
Space Explorer segir að um tíma hafi SpaceX verið að tapa nærri þúsund dölum á hverjum notanda Starlink-gervihnattanna. Tekist hafi að draga úr kostnaði en þrátt fyrir það sé kostnaðurinn við uppsetningu gervihnattanna gífurlega mikill og mun það reynast baggi á rekstri SpaceX.
Í lok tölvupóstsins sagði Musk að fyrirtækið standi frammi fyrir raunverulegri hættu á gjaldþroti ef ekki tekst að skjóta minnst einu Starship-geimfari út í geim á tveggja vikna fresti á næsta ári.
Musk hefur byggt SpaceX upp á grunni þess að með endurnýtanlegum eldflaugum er hægt að draga verulega úr kostnaði við geimskot. Fyrirtækið var nýverið metið á hundrað milljarða dala og greiningaraðilar telja mögulegt að SpaceX hafi burði til að gera Musk að fyrsta billjónamæringi heimsins, í dölum talið.
Sjá einnig: Ekki Tesla heldur SpaceX sem muni gera Musk að billjónamæringi
Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar.
Musk hefur áður sagt að Starship eigi í raun að vera eins og flugvélar. Hægt verði að stíga um borð í geimfar hér á Íslandi og lenda svo í Japan skömmu seinna. Þar eigi einungis að þurfa að dæla eldsneyti á geimfarið og fljúga því eitthvað annað.
Til stendur að skjóta fyrsta Starship-geimfarinu út í geim á næsta ári. Sú frumgerð kallast SN20 og er ekki búist við því að hún komist óskemmd í gegnum tilraunaskotið.
Musk sagði á Twitter í kvöld að gjaldþrot væri „ólíklegt, en ekki ómögulegt.“
The magnitude of the Starship program is not widely appreciated. It is designed to extend life to Mars (and the moon), which requires ~1000 times more payload to orbit than all current Earth rockets combined.
— Elon Musk (@elonmusk) November 30, 2021