Innherji

Það helsta sem snertir viðskiptalífið í nýja sáttmálanum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kynntur á Kjarvalsstöðum
Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kynntur á Kjarvalsstöðum VÍSIR/VILHELM

Stjórnvöld ætla að halda áfram að selja eignarhlut sinn í Íslandsbanka, auka frelsi fólks til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði og hvetja lífeyrissjóði til þátttöku í innviðafjárfestingum. Þetta er á meðal þess sem varðar viðskiptalífið hvað mest í nýjum stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri Grænna.

„Útfærðar verða leiðir til að auka frelsi fólks til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði,“ segir í sáttmálanum. Þetta er ein af tillögunum sem var sett fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið 2018 en þar var lagt til að gefa viðurkenndum fjárfestingasjóðum færi á því að taka að sér ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar.

Auk þess horfa stjórnvöld til þess hvernig auka megi þátttöku lífeyrissjóða í innviðafjárfestingum til að „flýta fyrir nauðsynlegum opinberum framkvæmdum“ sem og nýsköpun og grænum lausnum.

Tímabundnar heimildir lífeyrissjóða til aukinnar fjárfestingar í nýsköpunar- og vaxtarsjóðum verða festar í sessi þannig að sjóðirnir geti átt yfir 20 prósent í slíkum sjóðum. „Mikilvægt er að stuðla að því að lífeyrissjóðirnir geti ávaxtað eignir sínar með fjölbreyttum, ábyrgum og öruggum hætti að teknu tilliti til vaxandi umsvifa þeirra í íslensku efnahagslíf á undanförnum árum,“ segir í sáttmálanum.

Hvað nýsköpunarumhverfið varðar hyggjast stjórnvöld viðhalda endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, og festa í sessi tímabundna hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna kostnaðar sem fellur til við rannsóknir og þróun. Alþingi hækkaði í fyrra endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar úr 20 prósentum í 35 prósent og þak á endurgreiðslum hækkaði úr 600 milljónum króna í 1.100 milljónir króna.

Þá verður farið í endurskoðun á löggjöfinni um skattalega meðferð kauprétta og hlutabréfa hjá nýsköpunarfyrirtækjum þannig að þeim verði gert kleift að keppa um starfsfólk með því að bjóða þeim hlutdeild í framtíðarávinningi. 

„Við viljum auðvelda íslenskum fyrirtækjum aðgang að nauðsynlegri sérfræðiþekkingu og í því skyni verður erlendum sérfræðingum auðveldað að setjast að hér á landi og starfa hjá íslenskum fyrirtækjum.“

Stjórnvöld munu halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða. Í hlutafjárútboði Íslandsbanka hélt ríkið eftir 65 prósenta hlut í bankanum en miðað við markaðsgengi Íslandsbanka í dag er hluturinn metinn á meira en 160 milljarða króna. Og ef gengi bréfa Íslandsbanka er heimfært yfir á Landsbankann má ætla að virði ríkisbankans geti numið allt að 346 milljörðum króna.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt að hann sé hlynntur því að eigi áfram ráðandi hlut í Landsbankanum en selji afganginn. Sá hlutur  legið á bilinu 35 til 50 prósent.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.Vísir/Vilhelm

Þá er stefnt að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu og verða kannaðir möguleikar á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem „getur aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti.“ Markmiðið er að tryggja stöðu neytenda betur í „nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.“

Viðskiptaráð hefur áður bent á að þróunin í mörgum ríkjum Evrópu sé í átt til sameiningar verkefna með fækkun og stækkun stofnana. Hafa Finnland og Danmörk verið nefnd í því samhengien þar eru neytendamál og samkeppniseftirlit starfrækt undir einni og sömu stofnuninni.

Í sáttmálanum kemur fram að skattar verði lækkaði í samræmi við þróun ríkisfármála. Áhersla verður lögð á að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þá ætlar ríkisstjórnin að „stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegri verðbólgu og góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins“.

Taka sjávarútveginn fyrir

Sérstök nefnd verður skipuð til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og „meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfsins“. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að „hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.“ 

Nefndin mun einnig fjalla um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins.

Sáralítil viðskipti hafa verið með hlutabréf Brims og gengi bréfanna stendur óhaggað eftir að stjórnarsáttmálinn leit dagsins ljós. Síldarvinnslan hefur lækkað um 1,4 prósent það sem af er degi en velta með bréfin nam 84 milljónum króna.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×