Viðskipti innlent

Mjólkin hækkar í verði

Árni Sæberg skrifar
Lágmarksverð mjólkur til kúabænda hækkar um rúm þrjú prósent. Óvíst er hvort kýrnar sjálfar græði á því.
Lágmarksverð mjólkur til kúabænda hækkar um rúm þrjú prósent. Óvíst er hvort kýrnar sjálfar græði á því. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að hækka lágmarksverð sem kúabændur fá fyrir mjólk. Þá hækkar einnig heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands segir að lágmarksverð fyrsta flokks mjólkur til bænda hækki um 3,38 prósent, úr 101,53 krónum á lítrann í 104,96 krónur á lítrann.

Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækki almennt um 3,81 prósent  en verð á undanrennu- og nýmjólkurdufti verði óbreytt.

Verðhækkunin sé til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá því að verð var síðast ákveðið þann 1. apríl síðastliðinn.

Gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hafi hækkað um 3,38 prósent. Á sama tímabili hafi vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkað um 2,34 prósent.

Þá segir að við ákvarðanartöku hafi einnig verið litið til umsaminna launahækkanna sem taka gildi um áramót. Vinnslu- og dreifingarkostnaðar verði eftir þær 4,32 prósent hærri en fyrsta apríl síðastliðinn.

Mjólkurunnendur þurfa þó ekki að örvænta enn, enda er ekki öruggt að mjólkurvöruframleiðendur velti verðhækkun út í verðlag sitt. Það verður þó að teljast harla líklegt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×