Neytendur

Ný staðsetning Vínbúðarinnar í miðbæ vekur hörð viðbrögð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vínbúðin í Austurstræti mun loka bráðlega og verður flutt út á Granda.
Vínbúðin í Austurstræti mun loka bráðlega og verður flutt út á Granda. Vísir/Kolbeinn Tumi

Búið er að velja nýja staðsetningu fyrir Vínbúðina í miðborg Reykjavíkur. Fiskislóð 10 eru eina staðsetningin sem kemur til greina miðað við auglýsingu. 

Þetta segir í frétt Fréttablaðsins þar sem haft er eftir Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, að Vínbúðin hafi farið yfir innsend tilboð og hafi niðurstaða verið sú eftir ítarlega skoðun að Fiskislóð 10 væri eina staðsetningin sem uppfyllti skilyrði auglýsingarinnar.  

Íslandsbanki var eitt sinn staðsettur í húsnæðinu, sem er við hlið verslunar Bónus og til móts við Krónuna og Nettó á Granda. Hitt húsnæðið sem kom til greina hjá ÁTVR var við Hringbraut 119 til 121, við Hallveigarstíg 1 og á Hallgerðargötu 19 til 23. 

Tilkynningin hefur þegar vakið hörð viðbrögð netverja sem eru síður en svo sáttir við að Vínbúðin fari svo langt frá hjarta miðborgarinnar. Næstu skref, að sögn Sigrúnar, verða þó að ræða við eigendur húsnæðisins á Fiskislóð og sjá hvort samningar náist. 

„Nú verður engin Vínbúð í göngufæri fyrir um 40 þúsund Reykvíkinga. Kaldhæðnislega sömu 40 þúsund Reykvíkinga sem labba og hjóla mest samkvæmt ferðavenjukönnunum,“ skrifar Björn Teitsson á Twitter. 

„Jæja, þá er ég (bíllaus maður sem býr í miðbænum og vinnur í Borgartúni) bara hættur að drekka,“ skrifar Pétur Urbancic. 

„Ætlar Vínbúðin svona í alvöru ekki að hafa verslun í miðbæ Reykjavíkur? Það er alveg galið. Rakleiðis með þetta í búðir segi ég,“ skrifar Freyja Steingrímsdóttir.

Sigurður O. tekur undir þetta og segir þessa tilfærslu sturlun. 

Halldór Auðar Svansson segir Vínbúðina ekki eina meðal ríkisstofnana um að velja sér óaðgengilegar staðsetningar.

Reyn Alpha skrifar á Twitter að þessi staðsetning sé á pari við að Vínbúðin fyrir Hveragerði væri staðsett á Selfossi, svo langt sé Grandinn frá Miðbænum. 

Fréttin hefur verið leiðrétt. Áður sagði að Vínbúðin á Austurstræti verði flutt á Fiskislóð 10 en það er háð því hvort samningar náist við eigendur húsnæðisins. 


Tengdar fréttir

Uggandi yfir flutningi Vínbúðarinnar í Austurstræti

ÁTVR hyggst loka vínbúð sinni við Austurstræti og skoðar fjórar nýjar staðsetningar. Viðskiptavinir sem fréttastofa ræddi við í dag voru ósáttir við fyrirhugaðan flutning úr Austurstræti, einkum ef búðin verður færð í nýtt hverfi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.