Körfubolti

NBA stjarnan sem neitar að mæta í vinnuna stefnir í gjaldþrot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ben Simmons í leik með Philadelphia 76ers í NBA-deildinni á síðustu leiktíð.
Ben Simmons í leik með Philadelphia 76ers í NBA-deildinni á síðustu leiktíð. Getty/Kevin C. Cox

NBA körfuboltamaðurinn Ben Simmons neitar enn að mæta í vinnuna hjá Philadelphia 76ers sem ætlaði að borga honum fjóra milljarða íslenskra króna fyrir þetta tímabil. Fyrir vikið fær hann ekki útborgað og það er að koma karlinum í vandræði.

Simmons fór í fýlu eftir að hann var gerður að blóraböggli eftir klúður Sixers liðsins í úrslitakeppninni á síðasta tímabili. Hann átti gagnrýnina eflaust skilið enda skaut hann ekki á körfuna og hitti skelfilega á vítalínunni en hann vantaði vissulega meiri stuðning frá liðsfélögunum og félaginu sjálfu.

Það hefur ekki enn tekist að laga sambandið þar á milli og því spilar Philadelphia 76ers enn án eins síns besta leikmanns.

Fýlan rann nefnilega ekki af Simmons yfir sumarið og hann neitaði að mæta á æfingar í haust. Þegar hann mætti loksins eftir að Sixers hætti skiljanlega að borga honum laun þá entist það ekki lengi. Doc Rivers, þjálfari Philadelphia 76ers, endaði á að reka hann af æfingu og hann hefur ekki mætt síðan þá.

Nýjustu fréttirnar af Simmons er að hann stefnir í gjaldþrot vegna óhóflegrar neyslu nú þegar launin berast honum ekki lengur. Hinn 25 ára gamli Simmons kaupir víst nýjan bíl í hverjum mánuði og hefur keypt tvö hús í Philadelphia sem eru 17,5 milljónum dollara virði.

Simmons skrifaði undir fimm ára samning á 2019-20 tímabilinu sem átti að skila honum 177 milljónum Bandaríkjadala. 76ers hefur þegar borgað honum 90 milljónir dollara af þessum samning.

Fjarvera hans á þessu tímabili hefur kostað hann mikinn pening. Hann gæti endað á því að tapa tuttugu milljónum dala á þessu tímabili eða 2,6 milljörðum íslenskra króna.

Miðað við fréttir af peningavandræðum Simmons þá er kannski von um að menn fái að sjá hann mæta aftur í vinnuna og kannski fara að spila á ný með Sixers liðinu.

Ben Simmons er frábær leikmaður, öflugur leikstjórnandi og frábær varnarmaður. Hann er aftur á móti mjög lélegur skotmaður og þoldi greinilega ekki pressuna að spila á stóra sviðinu í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×