Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Tarbes 41-79 | Stórt tap í síðasta heimaleik Hauka

Atli Arason skrifar
Haukar mættu franska liðinu Villeneuve D'Ascq í riðlakeppni EuroCup í Ólafssal fyrr á tímabilinu.
Haukar mættu franska liðinu Villeneuve D'Ascq í riðlakeppni EuroCup í Ólafssal fyrr á tímabilinu. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Haukakonur máttu þola stórt tap er liðið tók á móti franska liðinu Tarbes í seinasta heimaleik sínum í riðlakeppni Evrópubikars kvenna í körfubolta, 41-79.

Haiden Palmer skorar fyrstu körfu leiksins en þrátt fyrir það byrja Haukar leikinn mjög illa. Tarbes fær að stjórna hraðanum í leiknum og Haukum gengur ekkert að hitta. Briana Gray jafnar leikinn í 4-4 þegar þrjár mínútur eru liðnar og heimakonur hættu að hitta eftir það og gestirnir byggja upp myndarlegt forskot, þær frönsku skora 11 stig áður en að Haukar ná að gera sínu þriðju körfu í leiknum eftir rúman 6 mínúta leik, 6-15. 

Aftur tekur við áhlaup hjá gestunum sem komast í 6-24 rétt undir lok leikhlutans en Lovísa Björt Henningsdóttir skorar þá úr báðum sínum skotum af vítalínunni. Fyrsta leikhluta lauk því með 16 stiga sigri gestanna, 8-24. Haukar voru með 16% skotnýtingu úr 18 skotum í leikhlutanum.

Heimakonur byrja annan leikhluta af krafti og allt annað að sjá til liðsins á upphafsmínútunum. Haukar skora fyrstu 8 stig leikhlutans. Briana Gray með 3 og Bríet Sif með 5, 16-24. Þá fara gestirnir aftur á flug en þær skoruðu næstu 8 stig á móti og þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður var staðan 16-32. Haukar náðu aðeins að laga stöðuna það sem eftir lifði annars leikhluta en honum lauk með 15-12 sigri Hauka og liðin gengu til búningsherbergja í stöðunni 23-36. Var þetta því miður eini leikhlutinn sem heimakonur unnu í kvöld.

Haukar mættu illa til leiks í síðari hálfleik. Sjö tapaðir boltar áður en þær skoruðu fyrstu stigin sín í síðari hálfleik reyndist dýrkeypt gegn jafn góðu liði og Tarbes er. Allt í einu voru gestirnir komnir í 16 stiga forystu, 26-42. Fleiri tapaðir boltar og ótímabærar þriggja stiga tilraunir urðu til þess þær frönsku bættu bara í forskot sitt sem var komið upp í 20 stig þegar leikhlutinn kláraðist, 32-52.

Gestirnir voru ekki á því að sýna Haukum neina miskunn í fjórða leikhluta. Þær héldu áfram að spila á sínu besta liði og bilið á milli liðanna breikkaði jafnt og þétt það sem á leið á síðasta fjórðungs. Mest varð munurinn á milli liðanna í þessum leik 39 stig undir lok leikhlutans, 40-79, en Briana Gray gerir síðasta stig leiksins af vítalínunni þegar ein sekúnda er eftir og því varð niðurstaðan stórt tap, 41-79.

Af hverju vann Tarbes?

Það má skrifa að Tarbes er sennilega of stór biti fyrir Hauka. Gestirnir voru einfaldlega betri á öllum sviðum. Fleiri fráköst, fleiri stolnir boltar, fleiri stig, fleiri skot og betri nýting. Afar sanngjarn sigur hjá þeim frönsku.

Hverjar stóðu upp úr?

Julie Wojta var óstöðvandi í kvöld. Hún gerði 28 stig, tók 19 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. 45 framlagspunktar alls hjá þeirri bandarísku fyrir Tarbes.

Hjá Haukum var Haiden Palmer stigahæst með 14 stig, ásamt því að taka 7 fráköst. Lovísa Björt Henningsdóttir endaði þó framlagshæst hjá Haukum með 12 framlagspunkta. 7 stig og 9 fráköst hjá Lovísu.

Hvað gerist næst?

Tarbes er áfram með 100% árangur í riðlinum og næst mæta þær Villeneuve í úrslitaleik um toppsæti riðilsins. Haukar fara í lokaleiknum sínum í heimsókn til KP Brno í Tékklandi en fyrst er það leikur við Fjölni á heimavelli á sunnudag.

„Við hittum ekki neitt“

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.Vísir/Hulda Margrét

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var vissulega sár með stórt tap en bendir þó á að Haukar þurfi ekki að skammast sín fyrir að tapa gegn jafn góðu liði og Tarbes er.

„Það er enginn skömm að tapa á móti þessu liði, þær eru taplausar í riðlinum en ég var óánægður kraftinn í okkur frá fyrstu mínútu og í raun ekki það sem við ætluðum að gera í dag. Ef þú kemur ekki með kraft inn í leikinn þá leyfirðu andstæðingnum að ná forystu og þá missum við sjálfstraust, en við hittum ekki neitt. Það er sama vandamálið í þessari keppni, við fáum mörg opin skot en erum ekki að ná að nýta það, því miður,“ sagði Baddi í viðtali við Vísi eftir leik.

Haukarnir töpuðu alls 22 boltum í kvöld sem er of mikið gegn svona öflugum andstæðing. Badda fannst liðið sitt vera of hikandi í leiknum.

„Mjög mikið. Um leið og þú ert hikandi og ekki eins áræðin og við ætluðum að vera, með trú og þor, þá verður allt hikandi og þá förum við að tapa boltanum. Hikandi í að fá boltann og hikandi í að senda boltann. Það er bara áskrift á 20-30 turnover,“ svaraði Baddi, aðspurður út í töpuðu boltana hjá Haukum í kvöld.

Tarbes spilaði án stærsta og fákastahæsta leikmanns liðsins, Ana Tadic, sem er 198cm há og hefur verið að taka 11,3 fráköst að meðaltali til þessa. Þrátt fyrir það unnu gestirnir frákasta baráttuna örugglega, 50-39.

„Hún er stór og allt það en hún er ekki endilega einhver yfirburða frákastari. Okkur vantar líka stóra leikmenn og ætli það jafnist ekki bara ágætlega út. Við erum ekki með alla okkar stóru leikmenn í liðinu í dag.“

Haukar fá stutta hvíld en þær spila næst gegn Fjölni eftir þrjá daga í Subway-deildinni.

„Við þurfum að skoða betur þennan leik en á morgun förum við bara að undirbúa Fjölnisleikinn en það er heimaleikur líka. Ég veit að þær koma klárar í þann leik á sunnudaginn,“ sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira