Innherji

Höfnuðu tilboði frá Festi og slitu söluferlinu á Lyfju

Hörður Ægisson skrifar
Velta Lyfju jókst verulega á síðasta ári var yfir 12,2 milljarðar króna.
Velta Lyfju jókst verulega á síðasta ári var yfir 12,2 milljarðar króna. Lyfja

Eigendur Lyfju, stærstu apótekskeðju landsins, hættu við áform sín um að selja allt hlutafé í félaginu í síðasta mánuði eftir að þau tilboð sem bárust í söluferli sem hafði verið sett af stað reyndust talsvert undir þeim væntingum sem hluthafar höfðu gert sér um virði fyrirtækisins. Stærsti eigandi Lyfju, með 70 prósenta hlut, er framtakssjóðurinn SÍA III sem er í rekstri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis.

Á meðal þeirra sem skiluðu inn tilboði í Lyfju var smásölurisinn Festi, sem meðal annars rekur matvöruverslanir og eldsneytisstöðvar undir merkjum Krónunnar, N1 og Elko, samkvæmt heimildum Innherja.

Þegar ákveðið var að leitast eftir tilboðum í Lyfju fyrr á árinu, sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hafði umsjón með, var einkum horft til Festi og Samkaupa sem mögulegra kaupenda að apótekskeðjunni enda þeir fjárfestar sem kynnu að geta réttlætt að greiða hærra verð fyrir Lyfju en margir aðrir. Ekkert tilboð barst aftur á móti frá Samkaupum, sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Nettó, Krambúðarinnar, Kjörbúðarinnar og Iceland, í söluferlinu.

Hluthafar Lyfju, að sögn þeirra sem þekkja vel til, höfðu gert sér vonir um að geta fengið liðlega átta milljarða króna fyrir félagið en tilboðið sem barst frá Festi var hins vegar langt undir þeim verðmiða.

Úr stuttri fjárfestakynningu vegna söluferlisins á Lyfju.

Hagnaður Lyfju, sem rekur alls 46 apótek og útibú um allt land ásamt vefverslun og snjall-apóteki, nam 438 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 150 milljónir á milli ára. Þá hækkuðu tekjur Lyfju um 15 prósent á árinu 2020 og voru samtals 12,2 milljarðar króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) jókst einnig verulega og var um 830 milljónir. Samkvæmt heimildum Innherja er útlit fyrir að EBITDA félagsins aukist enn frekar á þessu ári og verði um einn milljarður króna.

Eigendur Lyfju, sem eru ásamt framtakssjóðnum SÍA III félög í eigu fjárfestanna Inga Guðjónssonar og Daníels Helgasonar, hafa nú sett öll áform um sölu félagsins til hliðar og þess í stað eigi að einblína á að byggja upp frekari vöxt, einkum í aukinni netsölu á lyfjum á komandi árum.

Núverandi eigendahópur kom að Lyfju árið 2018 þegar fjárfestarnir keyptu félagið af Lindarhvol, umsýslufélagi sem var falið að halda utan um stöðugleikaeignir íslenska ríkisins. Árið áður hafði Samkeppniseftirlitið ógilt kaup Haga á Lyfju en smásölurisinn hafði samþykkt að greiða 6,7 milljarða króna fyrir apótekskeðjuna. Kaupverð SÍA III og einkafjárfestanna á Lyfju var hins vegar talsvert lægra.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.

Hlutdeild í netsölu þrefaldast

Í stuttri fjárfestakynningu (e. teaser) sem var útbúin vegna söluferlisins, sem Innherji hefur undir höndum, kemur fram að Lyfja hafi skapað sér sérstöðu á sínum markaði sem fyrsta og eina fyrirtækið með snjall-apótek. Með tilkomu þess hafi markaðshlutdeild Lyfju í netverslun aukist úr 13 prósent frá árinu 2018 í 35 prósent á fyrstu fimm mánuðum þessa árs.

„Appið var tekið í notkun í október 2020 og færa má rök fyrir að hlutdeild félagsins fari enn frekar vaxandi í netsölu á komandi árum,“ segir í kynningunni.

Þá er bent á að veruleg fjárfesting hafi átt sér stað í innri og ytri vexti Lyfju á síðustu árum sem skýri 25,2 prósent tekjuvöxtum á árunum 2018 til 2020 og þeim afkomubata sem varð á liðnu ári. Fjárfest hefur verið í þremur nýjum apótekum frá árinu 2019, meðal annars kaup á Reykjavíkur apóteki í Skeifunni af Högum fyrr á þessu ári, og opnun nýrra útibúa.

Hlutdeild Lyfju á markaðnum nemur 32 prósentum – næst stærsta apótekskeðjan er Lyf og Heilsa – og kemur fram í fjárfestakynningunni að heilsárs áhrif nýrra apóteka og annarra fjárfestingaverkefna komi að fullu fram á næsta ári. Árlegur meðalvöxtur í vörusölu Lyfju á árunum 2016 til 2020 nemur rúmlega 6 prósentum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Lyfja kaupir apótek í Skeifunni af Högum

Lyfja hefur náð samkomulagi við Haga um kaup á rekstri Reykjavíkur apóteks í Skeifunni. Apótekið var opnað í febrúar í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfju. Apótekið var áður í eigu Haga en kaupin eru með fyrirvara um afstöðu Samkeppniseftirlitsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×