Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Fram 25-26 | Fram hafði betur í spennuleik

Andri Már Eggertsson skrifar
Fram vann góðan sigur í kvöld.
Fram vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Fram komst á toppinn eftir eins marks sigur á Stjörnunni í spennuleik. Leikurinn var jafn nánast frá fyrstu mínútu og vann Fram að lokum 25-26. 

Leikurinn var í járnum fyrstu tuttugu og fimm mínútur leiksins. Hafdís Renötudóttir, markmaður Fram, var í sóttkví og gat ekki verið í markinu í leik kvöldsins. Stjarnan komst tveimur mörkum yfir 7-5 eftir tíu mínútna leik.

Darija Zecevic, markmaður Stjörnunnar, fór á kostum í markinu og varði ellefu skot í fyrri hálfleik. Hún var með 44 prósent markvörslu í hálfleik. Eva Björk Davíðsdóttir, markahæsti leikmaður deildarinnar, dró vagninn eins og oft áður fyrir Stjörnuna og gerði 4 mörk í fyrri hálfleik.

Stjarnan skoraði ekki mark á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks. Fram keyrði yfir Stjörnuna og enduðu fyrri hálfleik á að skora sex síðustu mörk fyrri hálfleiks og fór staðan úr 11-8 í 11-14 þegar haldið var til hálfleiks.

Stjarnan reif sig í gang eftir afleiddan endi á fyrri hálfleik. Stjarnan jafnaði leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks. Stjarnan skoraði þrjú mörk í röð um miðjan síðari hálfleik sem endaði með að Stefán Arnarson, þjálfari Fram, tók leikhlé í stöðunni 19-18.

Síðustu tíu mínútur leiksins voru æsispennandi. Liðin skiptust á að taka eins marks forystu. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sigur mark leiksins og hennar tíunda mark í leiknum þegar tæplega tvær mínútur voru eftir af leiknum.

Stjarnan fékk tækifæri til að jafna leikinn þegar þrettán sekúndur voru eftir af leiknum. Eva Björk Davíðsdóttir náði ágætis skoti sem Írena Björk Ómarsdóttir, markmaður Fram, varði. 

Fram vann leikinn á endanum 25-26.

Af hverju vann Fram?

Leikurinn þróaðist þannig að jafntefli hefði verið sanngjörn niðurstaða. Stjarnan klikkaði á tveimur vítum í leiknum sem reyndist ansi dýrt þegar talið var upp úr pokanum.

Hverjar stóðu upp úr?

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst á vellinum með tíu mörk. Ragnheiður skoraði einnig sigurmark leiksins. 

Darija Zecevic, markmaður Stjörnunnar, fór á kostum í kvöld. Darija Zecevic varði 21 skot og endaði með 47 prósent markvörslu.

Hvað gekk illa?

Stjarnan átti afar lélegan tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik þar sem liðinu tókst ekki að skora mark. Stjarnan var þá tveimur mörkum yfir en endaði á að vera 11-14 undir í hálfleik.

Stjarnan klikkaði á tveimur vítum sem reyndist ansi dýrt í jöfnum leik. 

Hvað gerist næst?

Stjarnan mætir KA/Þór 4. desember klukkan 16:00 í TM-höllinni.

Fram fær Hauka í heimsókn laugardaginn 4. desember klukkan 18:00. Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Leikurinn tapast á smáatriðum

Eva Björk átti góðan leik í liði Stjörnunnar.Vísir/Vilhelm

Eva Björk Davíðsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, var afar svekkt með tap kvöldsins.

„Það eru litlu hlutirnir sem fóru með leikinn. Mér fannst í fyrsta sinn við ekki átt skilið að tapa. Við gáfum allt í leikinn og tapast þetta því miður á smáatriðunum,“ sagði Eva Björk svekkt eftir leik.

Eva var afar svekkt með sóknarleik Stjörnunnar undir lok fyrri hálfleiks þar sem Fram gerði sex mörk í röð

„Það var erfitt að koma til baka þegar við lentum undir með þremur mörkum í hálfleik. Þrátt fyrir að við komum til baka þá var sóknarleikur og færanýting það sem fór með leikinn.“

Stjarnan hefur aðeins unnið tvo leiki það sem af er tímabils og var Eva ánægð með baráttuna sem Stjarnan sýndi í kvöld.

„Við vitum sjálfar hvað við getum og við eigum að vera ofar í töflunni. Það var ógeðslega svekkjandi að tapa þessum leik en við komum til baka,“ sagði Eva að lokum.

 

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.