Handbolti

Magdeburg heldur toppsæti C-riðils eftir jafntefli | Fyrsta tap Viktors og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg í kvöld. Peter Niedung/NurPhoto via Getty Images

Nú rétt í þessu leuk leikjum tveggja Íslendingaliða í Evrópubikarkeppni karla í handbolta. Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar þeirra í Magdeburg gerðu jafntefli gegn La Rioja, 29-29.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku gestirnir í Magdeburg frumkvæðið og náðu þriggja marka forystu í stöðunni 6-9. Munurinn hélst svoleiðis út hálfleikinn, og þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 13-16.

Magdeburg náði mest fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik, annars vegar í stöðunni 15-19, og hins vegar í stöðunni 19-23. Þá tóku heimamenn við sér og skoruðu fjögur mörk í röð. La Rioja náði síðan forystunni fljótlega eftir það og við tóku æsispennandi lokamínútur.

Liðin skiptust á að skora og að lokum skiptu þau stigunum á milli sín. Lokatölur urðu 29-29, en Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað.

Magdeburg er enn á toppi C-riðils, nú með fimm stig eftir þrjá leiki.

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í danski liðinu GOG þurftu að sætta sig við þriggja marka tap er liðið heimsótti Nantes í B-riðli. Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en heimamenn í Nantes fóru með þriggja marka forskot inn í hlé og litu aldrei um öxl.

Lokatölur urðu 27-24, en þetta var fyrsta tap GOG í riðlinum. GOG, Nantes og Lemgo eru nú öll jöfn í öðru sæti með fjögur stig eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×