Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Víkingur 32-18 | Selfoss fór illa með nýliða Víkings

Andri Már Eggertsson skrifar
visir-img
vísir/hulda margrét

Selfoss vann öruggan sigur á Víkingi 32-18. Selfoss var þremur mörkum yfir í hálfleik en keyrði yfir nýliða Víkings í seinni hálfleik og vann á endanum 14 marka sigur. 

Bæði lið hafa átt í vandræðum með sóknarleikinn á tímabilinu. Selfoss hefur verið í miklum meiðsla vandræðum og sóknarleikur liðsins fengið að gjalda fyrir það. Víkingur er nýliði í deildinni og skorar minnst allra liða að meðaltali í leik.

Sóknarleikur beggja liða var ekki merkilegur í fyrri hálfleik. Víkingur skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Eftir 25 mínútur höfðu gestirnir aðeins gert sex mörk. Þá tók við bærilegur kafli þar sem Víkingur gerði þrjú mörk í þremur sóknum og þá tók Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, leikhlé.

Hergeir Grímsson og Guðmundur Hólmar Helgason sáu að mestu leyti um sóknarleik Selfoss í fyrri hálfleik. Hergeir og Guðmundur skoruðu samanlagt 7 af 12 mörk Selfoss í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik 12-9.

Selfoss setti upp flugeldasýningu í seinni hálfleik. Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, tók leikhlé strax þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en ekkert stöðvaði Selfyssinga.

Selfoss skoraði sjö mörk í röð um miðjan seinni hálfleik og gestirnir voru einfaldlega farnir að telja niður hvenær leikurinn myndi klárast. 

Sóknarleikur Víkings var afleiddur í seinni hálfleik. Víkingur fór að spila með aukamann í sókn sem gerði Selfossi enn auðveldara fyrir. Selfoss endaði á að skora 32 mörk í leiknum sem er það mesta sem liðið hefur skorað á þessu tímabili í Olís deildinni. Mörkin hefðu getað verið fleiri ef ekki væri fyrir bærilegan leik Jovan Kukobat, markmann Víkings. 

Selfoss vann að lokum fjórtán marka stórsigur 32-18. 

Af hverju vann Selfoss?

Vörn og markvarsla Selfyssinga var frábær. Að fá á sig aðeins 18 mörk mun alltaf duga til sigurs. Seinni hálfleikur Selfoss var óaðfinnanlegur frá upphafi til enda. 

Hverjir stóðu upp úr?

Sölvi Ólafsson, markmaður Selfoss, átti frábæran leik. Sölvi endaði á að verja 16 skot sem er 48 prósent markvarsla. Sölvi kórónaði góðan leik með laglegu marki yfir allan völlinn. 

Guðmundur Hólmar Helgason er ný byrjaður að spila eftir löng meiðsli. Guðmundur Hólmar átti góðan leik í kvöld og var markahæsti maður vallarins með 10 mörk. 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Víkings var afleiddur í kvöld. Víkingur byrjaði á að skoraði aðeins tvö mörk úr opnum leik á fyrstu átján mínútum leiksins. 

Í seinni hálfleik kastaði Víkingur einfaldlega inn hvíta handklæðinu. Víkingur hætti og leyfði Selfossi að valta yfir sig. 

Hvað gerist næst?

Sunnudaginn eftir viku mætast Víkingur og Grótta í Víkinni klukkan 18:00. Selfoss fer til Vestmannaeyja næsta sunnudag og mætir ÍBV klukkan 14:00.

Halldór Jóhann: Víkingur gafst upp í lokin 

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, var sáttur með sigur kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, var afar ánægður með sigur kvöldsins.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Ég bjóst ekki fyrir leik við 14 marka sigri. Víkingur hefur verið hættulegur mótherji í vetur.“ 

Selfoss fékk aðeins átján mörk á sig og var Halldór Jóhann afar ánægður með varnarleik liðsins.

„Við vitum að við getum spilað góða vörn. Sölvi var frábær í markinu. Þegar okkur vantar leikmenn þá þarf næsti maður að stíga upp og taka ábyrgð sem Sölvi gerði.“ 

Seinni hálfleikur Selfyssinga var frábær og var Halldór ánægður með hvernig hans menn nálguðust verkefni kvöldsins. 

„Í seinni hálfleik kom mjög góður kafli þar sem við slitum Víking frá okkur. Við enduðum á að vinna með 14 mörkum og eflaust gáfust þeir upp undir lok leiks,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.