Viðskipti innlent

At­vinnu­leysi heldur á­fram að dragast saman

Eiður Þór Árnason skrifar
Vinnumálastofnun birti í dag nýja skýrslu um stöðuna á vinnumarkaði.
Vinnumálastofnun birti í dag nýja skýrslu um stöðuna á vinnumarkaði. Vísir/Vilhelm

Skráð atvinnuleysi var 4,9% í október og lækkaði úr 5,0% í september. Alls fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 428 sem nemur um 4,4% fækkun atvinnulausra frá septembermánuði. Atvinnuleysi mældist 5,0% í febrúar 2020 og er svipað nú og fyrir faraldurinn.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar en atvinnuleysi mældist 12,8% í janúar á þessu ári. Stofnunin spáir því að atvinnuleysi muni lítið breytast eða aukast lítils háttar í nóvember vegna árstíðasveiflu og verða á bilinu 5,0% til 5,3%.

Atvinnulausir voru alls 10.083 í lok október, 5.585 karlar og 4.498 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 141 frá septemberlokum og atvinnulausum konum fækkaði um 204.

Atvinnuleysi minnkaði mest í ferðatengdri starfsemi

Lækkun atvinnuleysis er að mestu leyti vegna fækkunar atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu en þar fækkaði um 402 að meðaltali frá fyrri mánuði. Áfram er atvinnuleysi mest á Suðurnesjum eða 9,2% en næst mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem það mælist 5,2%.

Alls höfðu 4.252 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok október og fækkaði um 346 frá september. Hins vegar voru þeir 3.614 í októberlok 2020. Alls voru 4.069 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok október og fækkaði um 75 frá fyrri mánuði.

Atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum í október frá mánuðinum á undan. Meðal stærstu atvinnugreina fækkaði mest í ferðatengdri starfsemi sem inniheldur ferðaþjónustu ýmiss konar, gistiþjónustu og veitingaþjónustu. Þar fækkaði atvinnulausum um á bilinu 4% til tæp 6%.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Færri at­vinnu­lausir og styttri vinnu­tími en í fyrra

Um 8.500 manns voru að meðaltali án atvinnu á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt tölum frá Hagstofu. Það jafngildir um 4% af heildarvinnuafli 16 til 74 ára. Á sama tíma í fyrra voru um 12.000 einstaklingar atvinnulausir, eða um 5,8%. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×