Innherji

Ráðuneytisstjóri situr í stjórn Þjóðarsjóðs Ómanríkis

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Stjórnarmenn Oman Investment Authority
Stjórnarmenn Oman Investment Authority

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hefur setið í stjórn Þjóðarsjóðs Ómanríkis (OIA) í tæplega ár. Þetta kemur fram í hagsmunaskráningu Guðmundar á vef Stjórnarráðsins.

„Ég var beðinn um að gefa kost á mér sem óháður stjórnarmaður. Ég varð við því í júlí á síðastliðnu ári og var valinn úr hópi þriggja einstaklinga til að taka sæti í stjórninni í desember,“ segir Guðmundur í svari við fyrirspurn Innherja.

Þjóðarsjóður Ómanríkis varð til á síðasta ári við sameiningu eignarhaldsfélags stjórnarmaður við sameiningu Eignarhaldsfélags Óman og Varasjóð Ómanska ríkisins.

„Mér er ekki alveg ljóst hvers vegna leitað er til mín,“ bætir Guðmundur við, „en ég hélt erindi í Óman í árslok 2018 um breytingar í opinberum fjármálum á Íslandi á árunum eftir fjármálahrunið.“

Aðspurður segist Guðmundur hafa leitað eftir óformlegum sjónarmiðum frá Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitinu og Utanríkisráðuneytinu áður en hann þæði boð um setu í stjórninni.

„Þar kom ekkert fram sem talið var að gæti orsakað vanhæfi af nokkrum toga. Hagsmunir Íslands og Óman liggja hvergi saman eða skarast,“ segir Guðmundur. Þá gerði fjármálaráðherra ekki athugasemdir við að hann þæði boðið.

Þjóðarsjóður Ómanríkis er í 39. sæti á lista Sovereign Wealth Fund Institute yfir stærstu þjóðarsjóði heims en talið er að eignasafn sjóðsins nemi 17 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 2.200 milljarða íslenskra króna.

Sjóðurinn er nokkuð smár í samanburði við þjóðarsjóði nágrannaríkja við Persaflóa sem hafa hundruð milljarða Bandaríkjadala í stýringu.

„Óman stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Landið er ekki eins ríkt og sumir nágrannar þeirra við Persaflóa. Olíuauðlindir eru takmarkaðar og torunnar, þannig að framtíðarhorfur í efnahag eru langt í frá tryggar, en þjóðin telur um 5 milljónir manna,“ segir Guðmundur.

„Stjórnvöld vinna að því að skjóta fleiri stoðum undir afkomu og efnahaginn og það er eitt meginverkefni Þjóðarsjóðsins að stuðla að því að svo megi verða en þar er m.a. horft til ferðaþjónustu og flutningastarfsemi.“

Stjórnarlaunin eru 5.000 ómanskir ríalar á ári, eða um 1,7 milljónir króna, en að auki eru greiddir dagpeningar vegna ferðalaga. Þá reiknast fjarvera vegna ferðalaga sem sumarleyfi.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×