Viðskipti innlent

Húsnæðisverð hækkaði meira en spár gerðu ráð fyrir

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Vond lykt í Lauganeshverfi
Vond lykt í Lauganeshverfi Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59% milli mánaða í október og mælist nú 4,5 prósent. Þetta er mesta verðbólga á árinu frá því í apríl þegar hún mældist 4,6%. Verðbólgan er að miklu leyti til knúin áfram af miklum hækkunum á íbúðaverði að því er kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Verðbólgan er í samræmi við spá hagfræðideildar bankans en húsnæðisverð hækkaði þó meira en sérfræðingar áttu von á. Húsnæðisverð hefur hækkað mikið frá því í febrúar en í október mældist ríflega 15 prósent hækkun á húsnæðisverði á tólf mánaða grundvelli og hefur ekki verið meiri frá því í nóvember 2017. 

Talið er að verðhækkanir á fasteignamarkaði muni fara minnkandi á næstu mánuðum og gerir hagfræðideild bankans ráð fyrir að íbúðaverð hækki um níu prósent á næsta ári en fjögur til fimm prósent næstu tvö ár þar á eftir.

Verðbólga án húsnæðis hefur þó hjaðnað jafnt og þétt á árinu og munar nú 1,5 prósentustigum milli verðbólgumælingar með og án húsnæðis. Ekki hefur verið meiri munur þar á frá því í apríl 2018. 

Auk hækkunar húsnæðisverðs hafði hækkun á bensíni og olíu, og húsgögnum og heimilisbúnaði, mest áhrif til hækkunar  á verðbólgu. Lækkun flugfargjalda til útlanda höfðu mest áhrif til lækkunar. 

Verðbólga hefur einnig farið vaxandi í helstu viðskiptalöndum Íslands á undanförnum mánuðum en verðhækkanir hafa fyrst og fremst verið knúnar áfram af hækkun hrávöruverðs, orkuverðs og flutningskostnaði.

Í Bandaríkjunum mældist verðbólga 5,4 prósent í september og hefur ekki mælst hærri í fimmtán ár. Svipaða sögu má segja á evrusvæðinu þar sem verðbólgan var 3,4 prósent í september og hefur heldur ekki verið jafn mikil í þrettán ár. 

Verði verðbólga enn há í heimshagkerfinu gæti það leitt til frekari verðbólgu með tilheyrandi kostnaði. Slíkt muni skila sér hingað til Íslands í hærra innflutningsverði og hærri verðbólgu. 


Tengdar fréttir

Bjarni segir verðbólguna ekki komna úr böndunum

Fjármálaráðherra segir verðbólguna ekki farna úr böndunum en hún hélt áfram að aukast í þessum mánuði og mælist nú fjögur komma fimm prósent. Hækkun húsnæðisverðs heldur áfram að drífa verðbólguna áfram en án hennar mælist verðbólgan þrjú prósent á síðustu tólf mánuðum.

Covid kreppunni lokið að mati Landsbankans

Covid kreppunni er lokið samkvæmt þjóðhagsspá Landsbankans sem birt var í dag þar sem gert er ráð fyrir miklum hagvexti á þessu ári og því næsta. Ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af húsnæðismarkaðnum þar sem framboð á íbúðum muni aukast á næstu árum.

Vildu aftur ganga lengra en seðla­banka­stjóri

Tveir af fimm nefndarmönnum í peningastefnunefnd Seðlabankans vildu hækka stýrivexti meira en gert var við síðustu vaxtákvörðun. Þann 6. október tilkynnti nefndin að vextir yrðu hækkaðir úr 1,25 prósentum í 1,50 prósent.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.