Viðskipti innlent

Rekstrar­af­gangur aldrei verið meiri á einum fjórðungi

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar Símans og Mílu er að finna í Ármúla 25 í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Símans og Mílu er að finna í Ármúla 25 í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Síminn hagnaðist um 1.057 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 1.014 milljónir á sama tímabili árið 2020. Um er að ræða 4,2% aukningu milli ára en tekjur drógust saman og námu 6.381 milljónum króna samanborið við 6.420 milljónir á þriðja ársfjórðungi 2020.

Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri félagsins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.974 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs og fer úr úr 2.805 milljónum. Nemur hækkunin því um 169 milljónum eða 6,0% frá fyrra ári.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningu að þriðji ársfjórðungur hafi verið ábatasamur í rekstri Símans og Mílu og rekstrarafgangur aldrei verið meiri á einum fjórðungi.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 2.968 milljónir króna á tímabilinu en 2.213 milljónir á þriðja ársfjórðungi 2020. Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 45,0% í lok þriðja ársfjórðungs og eigið fé 31,3 milljarðar króna.

Faraldurinn hefur enn áhrif á fjárhag Símans

Síminn hefur komist að samkomulagi um sölu á dótturfyrirtækinu Mílu til alþjóðlega sjóðsstýringafyrirtækisins Ardian. Samkvæmt kaupsamningi fær Síminn greidda um 44 milljarða króna í reiðufé og 15 milljarða króna í formi skuldabréfs sem Síminn veitir Ardian til þriggja ára. Áætlaður söluhagnaður er rúmlega 46 milljarðar en salan er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Orri segir að tekjur vegna gagnaflutnings og sjónvarpsþjónustu standi í stað milli ára, og hægagangur við framleiðslu sjónvarpsefnis á heimsvísu haldi meðal annars aftur af tekjuvexti.

„Vörusala minnkar, enda hafa Íslendingar aftur fengið færi á að kaupa vörur í heimsóknum sínum erlendis. Farsímatekjur eru í vexti á ný, sem er gleðiefni,“ er haft eftir Orra í tilkynningu til Kauphallar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×