Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að flogið verði einu sinni í viku, á miðvikudögum, til Palma á Mallorca og einu sinni í viku, á sunnudögum til Malaga.
„Malaga, heimabær Pablo Picasso, er sólríkasta borg Spánar en þessi fallega hafnarborg við Miðjarðarhafið er mjög vinsæl meðal ferðamanna. Það sama má segja um borgina Palma á paradísareyjunni Mallorca þar sem hreinar strendur, volgur sjór, náttúrufegurð og fallegur arkitektúr lokka til sín ferðamenn,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Birgi Jónssyni forstjóra að það sé óhætt að segja að Íslendingar njóti sín vel á Spáni. Frá því að Play hóf miðasölu hafi strax orðið gríðarleg eftirspurn eftir farmiðum til Spánar. „Við finnum einnig vel fyrir áhuga Spánverja á að koma til Íslands. Nýju áfangastaðirnir gefa þeim eldri ekkert eftir enda eru þetta sannkallaðar paradísarborgir og við hlökkum til að fljúga sólþyrstum Íslendingum á nýja staði,“ er haft eftir Birgi.