Viðskipti innlent

Vöru­við­skipta­jöfnuður nei­kvæður um tæpa 19 milljarða í septem­ber

Þorgils Jónsson skrifar
Útflutningsverðmæti áls voru veigamest í aukingu á útflutningi iðnaðarvara í september.
Útflutningsverðmæti áls voru veigamest í aukingu á útflutningi iðnaðarvara í september. Vísir/Vilhelm

Vöruviðskipti við útlönd voru óhagstæð um 18,8 milljarða króna í september. Til samanburðar voru vöruskiptin í september á síðasta ári neikvæð um 11,6 milljarða.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að samkvæmt bráðabirgðatölum hafi útflutningur numið 66,9 milljörðum og innflutningur 85,7 milljörðum.

Verðmæti vöruútflutnings í september jukust um 11,7 milljarða og munar þá mest um aukið verðmæti álútflutnings. 

Innflutningur í september jókst um 13 milljarða og munaði þar mestu um verðmæti innfluttra fjárfestingavara sem jókst um tæpa sex milljarða milli ára, eða um 41%. Verðmæti innflutts eldsneytis jókst um rúm 50%.

Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 213,6 milljarða króna sem er 61,3 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða jókst um fjórðung

Verðmæti vöruútflutnings síðustu tólf mánaða jókst um tæpa 100 milljarða króna, eða um 16,4% miðað við fyrra tímabil. Munar þar mest um iðnaðarvörur, sem eru um 50% af útflutningsverðmæti, en verðmæti þeirra hækkaði um 21% frá september 2020 til 2021.

Sjávarafurðir voru 40% af útflutningi og jókst verðmæti þeirra um 7,8% á tímabilinu.

Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 7,2 milljarða, eða um fjórðung, og var um 5% af heildarútflutningsverðmætum.

21% aukning á innflutningi

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 922,1 milljarður króna og jókst um 161,1 milljarð króna miðað við tólf mánuði þar á undan eða 21,2% á gengi hvors árs fyrir sig.

Aukningin á þessu tólf mánaða tímabili var mest í hrá- og rekstrarvörum, fjárfestingarvörum og flutningatækjum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.