Viðskipti erlent

Truflanir hjá Facebook

Eiður Þór Árnason skrifar
Langstærstur hluti Íslendinga er virkur á Facebook.
Langstærstur hluti Íslendinga er virkur á Facebook. Getty/Chesnot

Fjölmargir notendur Facebook og Instagram um heim allan hafa átt í vandræðum með að tengjast samfélagsmiðlunum frá því á fjórða tímanum. Einnig hefur borið á truflunum á þjónustu Whatsapp, Messenger og Workplace en allir fimm miðlarnir eru í eigu Facebook.

Á tilkynningarsíðunni DownDetector má sjá að fjöldi tilkynninga um vandamál með Facebook fór upp úr öllu valdi eftir klukkan 15 í dag. Snúa flestar þeirra að vandræðum með að opna Facebook.com í tölvu og síður að notkun á snjallsímum. 

Á sama tímabili má sjá mikla fjölgun ábendinga um þjónusturof hjá Whatsapp og Messenger. 

Í yfirlýsingu frá Andy Stone, samskiptastjóra Facebook, segir að samfélagsmiðlarisinn sé meðvitaður um sumir notendur eigi nú í vandræðum með að nota þjónusturnar.

„Við erum að vinna í því að koma hlutunum í samt horf eins fljótt og mögulegt er og biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.“

Einnig hefur borið á því að fólk eigi erfitt með að skrá sig inn á ótengdar vefsíður og tölvuleiki með Facebook-aðgangi sínum. 

Fulltrúar Facebook hafa ekki gefið út hvað orsaki vandamálin en vísbendingar eru um að fyrirtækið eigi í vandræðum með svokallað lénsheitakerfi, eða DNS. Kerfið sér meðal annars um að beina netumferð sem leitar til Facebook í réttan farveg þegar notendur reyna að tengjast samfélagsmiðlunum. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×