Viðskipti innlent

Endur­greiðslur vegna Allir vinna nema tæpum sex milljörðum það sem af er ári

Atli Ísleifsson skrifar
Vegna ársins 2021 hafa þegar verið afgreiddar um 23.000 endurgreiðslubeiðnir en alls hafa borist rúmlega 45.000 endurgreiðslubeiðnir.
Vegna ársins 2021 hafa þegar verið afgreiddar um 23.000 endurgreiðslubeiðnir en alls hafa borist rúmlega 45.000 endurgreiðslubeiðnir. Vísir/Vilhelm

Endurgreiðslur vegna átaksins Allir vinna nema tæplega 5,9 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins. Alls hafa verið afgreiddar um 23 þúsund endurgreiðslubeiðnir af þeim 45 þúsund sem borist hafa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samiðn – sambandi iðnfélaga. Aðgerðin gildir út árið 2021 en í henni felst 100 prósent endurgreiðsla af virðisaukaskatti af þeirri starfsemi sem hún nær til.

Þar segir að samkvæmt upplýsingum frá Skattinum skiptist endurgreiðslurnar á fyrstu átta mánuðum ársins þannig að 2,1 milljarður voru endurgreiddur vegna endurbóta og viðhalds á íbúðarhúsnæði, vegna bifreiðaviðgerða 122 milljónir, 798 milljónir vegna nýbyggingar á íbúðarhúsnæði og endurgreiðsla til byggingaraðila nam 2,9 milljörðum. Alls nemi endurgreiðslur það sem af er árinu 2021 nú þegar tæplega 5,9 milljörðum.

„Vegna ársins 2021 hafa þegar verið afgreiddar um 23.000 endurgreiðslubeiðnir en alls hafa borist rúmlega 45.000 endurgreiðslubeiðnir. Því á enn eftir að afgreiða um helming endurgreiðslubeiðna. Samtals hafa borist jafn margar endurgreiðslubeiðnir nú á fyrstu átta mánuðum ársins og fyrir allt árið í fyrra,“ segir í tilkynningunni.

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnaðar.aðsend

Haft er eftir Hilmari Harðarsyni, formanni Samiðnar, að ánægjulegt sé að neytendur nýti átakið vel til framkvæmda. Það sé atvinnuskapandi og einnig mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum þar sem það tryggi enn frekar að leitað sé til fagmanna.

„Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda og endurbóta var hækkuð úr 60% í 100% til að bregðast við niðursveiflu í kjölfar heimsfaraldursins. Samiðn hefur lagt mikla áherslu á þetta átak Allir vinna enda er afar mikilvægt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að skila mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins,“ segir Hilmar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.