Viðskipti innlent

Arnarlax freistar þess að fá blágrænan lit skráðan sem vörumerki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Arnarlax er fyrsta fyrirtækið sem sækir um að fá lit skráðan sem vörumerki á Íslandi.
Arnarlax er fyrsta fyrirtækið sem sækir um að fá lit skráðan sem vörumerki á Íslandi.

Hugverkastofu hefur borist ein umsókn um skráningu litamerkis en umsækjandinn er fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hf. Ný lög sem tóku gildi í fyrra opna á að á Íslandi sé hægt að skrá ýmis konar óhefðbundin vörumerki, á borð við liti, hljóð og umbúðir.

Samkvæmt upplýsingum frá Hugverkastofu hefur umsókn Arnarlax ekki verið samþykkt en hún er sú fyrsta sem berst eftir að lögunum um vörumerki var breytt.

Liturinn sem Arnarlax vill fá skráðan sem vörumerki er blár litur; Pantone 630 c, CMYK 65-10-25-0, RGB 114-176-189 og HEX 72B0BD. Eflaust má lýsa honum sem sægrænum en um er að ræða tón af „cyan“, sem hefur ýmist verið þýtt sem blátt eða blágrænt.

Vísir greindi frá því í morgun að alþjóðlega matvælafyrirtækið Mondelez hefði höfðað mál á hendur öðru fyrirtæki þar sem það hefur fengið ákveðinn lillabláan lit skráðan sem vörumerki hjá Hugverkastofnun Evrópusambandsins.

Óhefðbundnum vörumerkjum hefur fjölgað gríðarlega úti í heimi en fyrirtæki og einstaklingar geta nú slegið eign sinni á liti, hljóð og lögun, svo eitthvað sé nefnt. 

Þannig er öskur MGM ljónsins til dæmis skrásett vörumerki og fyrirtækið sem framleiðir Kit Kat hefur tekið margan slaginn til að vernda fjögra fingra lögun súkkulaðisins. 

Sums staðar ná vörumerkjalög einnig til lyktar og bragðs.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.