Viðskipti innlent

Play nælir í sölu­sér­fræðing frá Icelandair

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tatiana hefur töluverða reynslu úr flugbransanum.
Tatiana hefur töluverða reynslu úr flugbransanum. Play

Tatiana Shirokova hefur verið ráðin forstöðumaður sölusviðs Play og mun hún bera ábyrgð á sölu- og dreifingarmálum félagsins. Sölusvið er hluti af sölu- og markaðssviði og tekur Tatiana til starfa þann 1. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play.

Hún kemur til Play frá Icelandair þar sem hún hefur starfað síðastliðin fjögur ár, fyrst í alþjóðlegum viðskiptatengslum og síðar sem sölustjóri á alþjóðlegum mörkuðum. Þar áður var hún forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá flugleitarvél Dohop.

Tatiana hefur einnig alþjóðlega reynslu en hún starfaði og stundaði nám í Rússlandi. Hún stýrði Global Business Travel Association (GBTA) í Rússlandi, vann í auglýsingamálum fyrir vörumerkið, sá um þjálfun starfsfólks ásamt því að skipuleggja ráðstefnur og viðburði og vinna að markaðs- og kynningarmálum á svæðinu. 

Þá var hún forstöðumaður sölusviðs hjá Discover the World og British Midland International. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri sölumála hjá Thai Airways International á árunum 2005-2007 og starfaði í sölu- og markaðsmálum hjá British Airways á árunum 2000-2005.

Tatiana er með MBA gráðu í stjórnun frá Rússlandi með áherslu á stjórnun. Þá er hún með diplómu í stafrænni markaðssetningu.

„Tatiana er reyndur stjórnandi með alþjóðlega reynslu í flugiðnaði til margra ára og við erum gríðarlega ánægð að fá hana í PLAY liðið. Hún þekkir vel hefðbundna dreifingu flugfargjalda og stendur fremst meðal jafningja þegar kemur að stafrænni dreifingu. Markmið okkar er að viðskiptavinir sjái alltaf PLAY þar sem þeir leita að hagkvæmustu og bestu flugtengingunni, og þá skiptir öllu að vera sýnileg á þeim síðum sem fólk vill nota. Besta verðið mun svo tryggja að PLAY birtist efst á þessum síðum,“ segir Georg Haraldsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs PLAY.

„Ég er mjög spennt fyrir því að hefja störf hjá PLAY. Ég tel að PLAY sé að koma inn á markaðinn á einstaklega góðum tíma og er stolt af því að fá að taka þátt í að leiða sölu- og dreifingarmál félagsins og byggja upp félagið,“ segir Tatiana.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.