Viðskipti innlent

Ís­lenskur bar á alþjóðlegum topplista

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér eru þeir Jakob Eggertsson, Jónas Heiðarr Guðnason, Ólafur Andri Benediktsson og Sindri Árnason eigendur Jungle. 
Hér eru þeir Jakob Eggertsson, Jónas Heiðarr Guðnason, Ólafur Andri Benediktsson og Sindri Árnason eigendur Jungle.  Jakob Eggertsson

Íslenski hanastélsbarinn Jungle hefur verið valinn af 50 Best Discovery á lista yfir fimmtíu veitingastaði og bari í heiminum sem ferðalangar ættu að heimsækja. Þetta er fyrsta skiptið sem íslenskur bar kemst á þennan lista.

Listinn er á vegum 50 Best Discovery. Á hverju ári kjósa sérfræðingar fimmtíu bestu bari í heiminum, sem enda á listanum 50 Best Bars, en sérfræðingarnir velja svo aukalega fimmtíu staði til viðbótar sem komust ekki inn á listann en þeim finnst vert að minnast á. Jungle hafnaði á síðari listanum. 

„Þetta kveikir rosalega í manni og sýnir að maður er á réttri braut,“ segir Jónas Heiðarr Guðnason, einn af eigendum Jungle.

Í dómi 50 Best Discovery segir að Jungle sé alger 21. aldar kokteilbar. Augljóst sé að þúsaldarkynslóðin ráði ríkjum á kránni, þar sem plöntur séu í öllum hornum og skrautlegt veggfóður upp um alla veggi.

Í dómi 50 Best Bars segir að drykkirnir á Jungle séu fjölbreyttir og skemmtilegir.Jakob Eggertsson

„Þessi vinalega hugmynd um hverfisbarinn breytist eftir því sem líður á vikuna. Það er gleðistund allan daginn á mánudögum, róleg stemning um miðja vikuna og partý um helgar þegar teymið reynir að sinna barþjónastörfum og störfum plötusnúðs á sama tíma,“ segir í dómnum.

„Drykkirnir eru mjög fjölbreyttir: einfaldir, fínir, framandi og áfengislausu drykkirnir ekki af verri endanum.“

Eigendur Jungle segja viðurkenninguna skipta miklu máli. Viðurkenningin sé hvatning til að gera enn betur.

„Við erum náttúrulega alltaf að reyna að bæta okkur og það að fá svona viðurkenningu lætur okkur vinna ennþá harðar að því,“ segir Ólafur Andri Benediktsson, einn eigenda Jungle. „Við erum rétt að verða tveggja ára núna í nóvember, þannig þetta eru hrikalega skemmtilegar fréttir. Verður gaman að sjá hvað við getum gert þegar heimurinn fer að opnast allur á ný.“

Fréttin hefur verið leiðrétt. Áður sagði að Jungle væri á listanum yfir fimmtíu bestu barina en hann reyndist á lista yfir fimmtíu bari sem dómnefndinni fannst vert að minnast á. Þetta hefur verið leiðrétt. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×