Viðskipti innlent

SalesCloud bætir við sig fjórum starfsmönnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá vinstri: Pálmi Þormóðsson, Rúnar Leví Jóhannsson, Friðrik Már Jensson og María Björk Gísladóttir.
Frá vinstri: Pálmi Þormóðsson, Rúnar Leví Jóhannsson, Friðrik Már Jensson og María Björk Gísladóttir.

Hugbúnaðarfyrirtækið SalesCloud hefur ráðið fjóra nýja starfsmenn; Maríu Björk Gísladóttur, Friðrik Má Jensson, Pálma Þormóðsson og Rúnar Leví Jóhannsson.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá fleiri öfluga teymisfélaga til liðs við okkur til að takast á við þær spennandi áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Ráðningarnar koma samhliða auknum umsvifum félagsins og endurspegla vöxt SalesCloud en með þeim erum við bæði að styrkja vörur og þjónustur sem fyrir eru, eins og Yess markaðstorgið, og svo þróa nýjar lausnir. Við erum í raun full þakklætis og ætlum að halda áfram að leggja allt í að halda viðskiptavinum okkar ánægðum,“ er haft eftir Helga Andra Jónssyni, framkvæmdastjóra SalesCloud, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Um ráðningarnar segir eftirfarandi:

María Björk er ráðin inn til að hafa yfirumsjón með bókhaldi félagsins en hún er viðurkenndur bókari og er um þessar mundir að ljúka við BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Áður en María kom yfir til SalesCloud starfaði hún meðal annars hjá fyrirtækjunum CCP og Actavis.

Friðrik Már Jensson hefur verið ráðinn í innleiðingardeild SalesCloud og mun þar sjá um innleiðingar á viðskiptalausnum félagsins. Friðrik er með BA gráðu í kvikmyndafræði, diploma í vefmiðlun og meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Áður en Friðrik réði sig til SalesCloud starfaði hann hjá Tripadvisor.

Pálmi Þormóðsson kemur til með að starfa sem forritari í þróunardeild SalesCloud en hann er menntaður tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og starfaði með námi sem stuðningsfulltrúi í Klettaskóla.

Annar forritari bætist við góðan hóp starfsfólks SalesCloud en Rúnar Leví Jóhannsson kemur til með að starfa sem slíkur en hann stundar einnig nám í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×