Skoðun

Húrra fyrir frelsinu (í boði Evrópu­sam­bandsins)

Pawel Bartoszek skrifar

Áhugafólk um örlítið nútímalegri áfengislöggjöf hefur ekki haft mörg tækifæri til skála á kjörtímabilinu. Áfengisskattarnir eru með þeim hæstu í Evrópu. Fólki er bannað að brugga bjór og vín til einkanota. Lítil brugghús sem taka á móti gestum mega alls ekki leyfa gestunum að kaupa sér bjór þegar fólk heldur heim. Ekki tókst þinginu að leyfa vefverslanir með áfengi heldur.

Líkt og áður þá dúsuðu áfengisfrumvörpin þreytt og vonlítil í nefndum þingsins, eins og uppgefnir stríðsfangar sem vita þeirra eina von er að vera sleppt úr haldi í skiptum fyrir önnur vonlítil frumvörp einhver annars ráðherra. Frelsinu varð lítið ágengt.

Og þó. Undir lok kjörtímabilsins opnuðu framtakssamir aðilar vefverslanir með áfengi. Erlendar vefverslanir með áfengi eru nefnilega leyfðar samkvæmt EES-samningnum. Nýju verslanirnar eru skráðar erlendis en dreifa vörum til íslenskra neytenda milliliðalaust. Þær ganga enn þrátt fyrir að ríkisverslunin sem heyrir undir fjármálaráðherra hafi reynt sitt til að stöðva starfsemina.

Ég fæ stundum að heyra frá frelsis-þenkjandi fólki að það sem Evrópusambandið gerir vel, “getum við bara gert sjálf”. Það er kannski tæknilega rétt, en við gerum það samt ekki. Þegar kemur að viðskiptafrelsi, afnámi einokunar og rétti neytenda þá er það oftar en ekki þannig að frelsinu er þröngvað upp á íslensk stjórnvöld. Með grjótharðri tilskipun frá Evrópusambandinu.

Höfundur er í 22. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×