Viðskipti innlent

Starfsmönnum Play boðið 50 prósent lægra starfshlutfall í vetur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Birgir Jónsson forstjóri Play segir hugmyndina ekki koma frá stjórn félagsins.
Birgir Jónsson forstjóri Play segir hugmyndina ekki koma frá stjórn félagsins. Vísir/Vilhelm

Stjórnendur Play funduðu með starfsmönnum félagsins í síðustu viku en á fundinum var meðal annars rædd sú tillaga að flugmenn og flugliðar tækju á sig allt að 50 prósent lækkun á starfshlutfalli gegn fastráðningu í vetur.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en heimildir blaðsins herma að óánægju gæti meðal flugmanna eftir fundinn. Samkvæmt blaðinu eru flugmenn Play 26 og allir fastráðnir í fullu starfi en flugliðar 52 og aðeins 16 fastráðnir.

„Ég var nú reyndar ekki á fundinum sjálfur en það er mikilvægt að árétta að þessi hugmynd kemur ekki frá stjórninni heldur vaknar hún hjá hópnum,“ hefur Morgunblaðið eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play.

Hann sagði henni ætlað að tryggja að fleiri fengju vinnu í vetur.

„Í stað þess að þeir sem eru bara með ráðningarsamning út sumarið myndu detta út í haust og koma svo kannski aftur inn í vor, var sú hugmynd lögð fram að þeir starfsmenn sem gætu og vildu tækju á sig lækkun á starfshlutfalli.“

Að sögn Birgis er nú ofmannað í áhöfn félagsins, sem hefur þurft að fella niður fjölda ferða vegna kórónuveirunnar. Félagið stefnir hins vegar á Bandaríkjamarkað næsta vor.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.