Viðskipti innlent

Hafa skilað inn um­­­sókn um Banda­­ríkja­flug: „Mikið reglu­verk og þarf að plana vel“

Atli Ísleifsson skrifar
Birgir Jónsson er forstjóri Play og segir að litið sé til áfangastaða á austurströnd Bandaríkjanna og Kanada.
Birgir Jónsson er forstjóri Play og segir að litið sé til áfangastaða á austurströnd Bandaríkjanna og Kanada. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play hefur skilað inn umsókn til bandarískra flugmálayfirvalda um heimild til farþegaflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna.

Bandaríski fjölmiðillinn airinsight segir frá þessu og að stefnt sé að því að hefja flugið næsta sumar.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir í samtali við Vísi að félagið hafi áður gefið það út að hefja flug milli Norður-Ameríku og Íslands og að gögnum hafi verið skilað inn fyrir helgi.

„Þetta var partur af okkar skráningu á markað og við stefnum á að geta hafi flug næsta vor. Þetta er gríðarlega stórt verkefni. Mikið regluverk og þarf að plana vel.“

Birgir segir að þetta þurfi nú að hafa sinn gang þar sem bandarísk flugmálayfirvöld munu nú svara félaginu. „Það hafa margir hér staðið í þessu áður hjá WOW. Það þarf að undirbúa þetta vel, enda stórt mál.“

Halda spilunum þétt að sér

Birgir segist vona að hægt verði að hefja á sölu á miðum í flug til Bandaríkjanna fyrir áramót, en að áætlunarflug vestur hefist svo næsta vor.

Hann vill þó lítið gefa uppi um áfangastaði, en að sjálfsögðu sé litið til stærstu borganna, svo sem New York, Boston og Washington DC. Félagið ætli þó að halda spilunum þétt að sér og verði áfangastaðir flugfélagsins kynntir síðar.

Birgir segir þó að einungis sé litið til austurstrandar Bandaríkjanna og Kanada, ekki áfangastaða á Kyrrahafsströndinni. „Við lítum til austurstrandarinnar til að halda vélunum í þessari „24 tíma lúppu“ og tryggja þannig betri nýtni á vélunum. Reynslan sýnir að flug til vesturstrandarinnar auki á flækjustig hvað nýtni vélanna varðar.“

Flugvélafloti Play telur nú þrjár A321neo vélar, og er von á þremur til viðbótar á næsta ári.


Tengdar fréttir

Verk­föll eru það síðasta sem ferða­þjónustan þarf á að halda

Verk­föll hjá flug­um­ferðar­stjórum væru það síðasta sem ferða­þjónusta og flug­iðnaður landsins þarf á að halda að sögn Birgis Jóns­sonar, for­stjóra PLAY. Fé­lag ís­lenskra flug­um­ferðar­stjóra (FÍF) á­kveður í dag hvort ráðist verði í verk­falls­að­gerðir á þriðju­daginn í næstu viku og skoða hvort greiða eigi atkvæði um frekari verk­falls­að­gerðir á næstunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×