Erlent

Fjórtán greinst með Covid-19 þrátt fyrir þriðja skammtinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Hin 83 ára Rachel Gershon fær þriðja skammtinn af bóluefni Pfizer/BioNTech á hjúkrunarheimili í borginni Netanya í Ísrael. 
Hin 83 ára Rachel Gershon fær þriðja skammtinn af bóluefni Pfizer/BioNTech á hjúkrunarheimili í borginni Netanya í Ísrael.  AP/Oded Balilty

Fjórtán Ísraelsmenn hafa greinst með Covid-19 þrátt fyrir að hafa fengið þriðja skammtinn af bóluefni, samkvæmt upplýsingum frá ísraelska heilbrigðisráðuneytinu.

Hafa tveir hinna sýktu verið lagðir inn á sjúkrahús vegna veikinda sinna, að því er fram kemur í frétt ísraelsku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 12.

Ekki liggur fyrir hvort einstaklingarnir sýktust áður en þeir fengu örvunarskammtinn og ekki liggja fyrir næg gögn til að draga ályktanir um virkni þriðja skammtsins. Ellefu þeirra sem greindust hafa náð 60 ára aldri en hinir yngri voru með bælt ónæmiskerfi.

Minnst 420 þúsund Ísraelar hafa nú fengið þrjá skammta af bóluefni gegn Covid-19 eftir að nýtt bólusetningaátak hófst þar í landi. Að sögn ísraelska fjölmiðla er nú hart barist um það innan ríkisstjórnarinnar hvort grípa eigi til útgöngubanns á ný í ljósi fjölgunar smitaðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×