Körfubolti

Bandaríska körfuboltalandsliðið svaraði fyrir sig með risasigri í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Lillard skoraði fimmtán af stigum sínum í fyrri hálfleiknum.
Damian Lillard skoraði fimmtán af stigum sínum í fyrri hálfleiknum. AP/Charlie Neibergall

Bandaríska körfuboltalandsliðið er komið á blað á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir 54 stiga sigur á Íran, 120-66, í öðrum leik sínum á leikunum.

Bandaríska liðið tapaði fyrsta leik sínum á mótinu sem var á móti Frökkum en það var fyrsta tap Bandaríkjamanna í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna í næstum því tuttugu ár. 25 leikja sigurganga liðsins á ÓL endaði í fyrsta leik en í nótt var allt annað að sjá til leikmanna liðsins.

Bandaríkjamenn keyrðu yfir Írana og voru komnir með þrjátíu stiga forskot í hálfleik, 60-30.

Damian Lillard var stigahæstur með 21 stig á 23 mínútum en hann skoraði sjö þrista í leiknum og gaf einnig fimm stoðsendingar. Devin Booker var með 16 stig á 19 mínútum, Jayson Tatum skoraði 14 stig og Zach Lavine var með 13 stig og 8 stoðsendingar.

Kevin Durant var síðan með 10 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar, 3 varin skot og 2 stolna bolta á 19 mínútum.

Gregg Popovich, þjálfari bandaríska liðsins, gerði meðal annars tvær breytingar á byrjunarliðinu sínu frá því í Frakkleiknum því þeir Jrue Holiday og Devin Booker komu báðir inn í liðið. Með því kom betra jafnvægi og meiri hraði í liðið enda skoraði liðið 19 hraðaupphlaupsstig í fyrri hálfleiknum.

Sex leikmenn bandaríska liðsins skoruðu fleiri en eina þriggja stiga körfu og liðið skorað alls nítján þrista í leiknum.

Bandaríkjamenn geta því tryggt sér sæti í úrslitakeppninni með sigri á Tékkum í næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×