Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnast um 14,1 milljarð króna

Eiður Þór Árnason skrifar
Bankinn birti jákvæðu niðurstöðurnar í dag. 
Bankinn birti jákvæðu niðurstöðurnar í dag.  Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hagnaðist um 6,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2021 og var afkoma bankans jákvæð um 14,1 milljarð króna á fyrri helmingi ársins. Til samanburðar var 3,3 milljarða króna tap á sama tímabili árið 2020.

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,8% á ársgrundvelli, en hún var neikvæð um 2,7% á sama tímabili árið 2020. Þetta kemur fram í fjárhagsuppgjöri Landsbankans fyrir fyrri helming 2021. Heildareignir bankans jukust um 113 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.677 milljörðum króna í lok fyrri helmings ársins 2021. Kostnaðarhlutfall var 43,7% undir lok tímabilsins.

Útlán jukust um 54,6 milljarða króna en útlánaaukninguna á fyrri helming ársins má að sögn bankans rekja til aukningar á lánum einstaklinga. Í lok fyrri helmings ársins 2021 voru innlán frá viðskiptavinum 843 milljarðar króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020 og höfðu því aukist um 50 milljarða króna.

Juku markaðshlutdeild sína

Eigið fé Landsbankans var 267,9 milljarðar króna þann 30. júní síðastliðinn og eiginfjárhlutfallið var 25,1%. Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er tæplega 39% og hefur aldrei verið hærri, að sögn bankans. Íbúðalán hafa aukist um 14% frá áramótum og hefur hlutdeild hans á íbúðalánamarkaði aldrei verið meiri, að sögn bankans.

Á fyrri árshelmingi námu hreinar vaxtatekjur 19 milljörðum króna sem er sama fjárhæð og árið áður. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 4,4 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru 6,9 milljarðar króna en voru neikvæðar um 13,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2020.

Betri staða efnahagslífsins hafði áhrif á fjárhaginn

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir að um mitt ár 2020 hafi verið settar verulegar fjárhæðir í varúðarsjóð vegna mögulegra útlánatapa en vegna betri stöðu í efnahagslífinu og fárra vanefnda séu virðisbreytingar útlána nú jákvæðar og varúðarsjóður lækki á árinu.

„Bankinn er eftir sem áður í góðri stöðu til að takast á við áframhaldandi óvissu og bregðast við áhrifum Covid-19-faraldursins,“ segir Lilja Björk í tilkynningu.

„Uppgjör bankans fyrstu sex mánuði ársins er afar gott; arðsemi eiginfjár er góð, kostnaður lækkar og traust afkoma var af öllum starfsþáttum. Merkjanleg aukning er í eignastýringu og markaðshlutdeild bankans hefur aldrei verið hærri.“

Lilja bætir við að undanfarið ár hafi áhugi almennings á að ávaxta sparifé sitt með kaupum í verðbréfasjóðum og hlutabréfum aukist til muna. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
2,04
14
23.821
ARION
1,72
25
408.969
FESTI
1
1
30.300
MAREL
0,11
13
242.505
SJOVA
0
1
3.750

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SVN
-0,59
5
19.315
EIM
-0,52
2
25.075
KVIKA
-0,42
17
364.069
SIMINN
-0,17
7
286.759
SJOVA
0
1
3.750
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.