Viðskipti innlent

Matthías frá Eimskip til Borgarplasts

Eiður Þór Árnason skrifar
Matthías Matthíasson tekur brátt við nýju hlutverki.
Matthías Matthíasson tekur brátt við nýju hlutverki. Borgarplast

Matthías Matthíasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Borgarplasts og tekur við af Guðbrandi Sigurðssyni. Á árunum 2009 til 2020 starfaði Matthías sem framkvæmdastjóri flutningasviðs hjá Eimskip.

Árin 2004 til 2009 var hann framkvæmdastjóri Komatsu í Danmörku og þar áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri Eimskips í Englandi.

Er Matthías sagður búa yfir mikilli reynslu af sölu og útflutningi og ætla að leggja sérstaka áherslu á þau svið í störfum sínum.

„Guðbrandur hefur leitt fyrirtækið af mikilli festu í gegnum mikla umbreytingu og COVID en hefur nú óskað eftir því að láta af störfum til að sinna öðrum verkefnum. Eftir sameiningu fjölskyldufyrirtækjanna Plastgerðar Suðurnesja og Borgarplasts hefur hann innleitt og byggt upp innri ferla þar sem áhersla er lögð á öryggismenningu, umhverfis- og gæðamál og nýsköpun,“ segir Árni Jón Pálsson, stjórnarformaður Borgarplasts, í tilkynningu.

„Matthías tekur nú við keflinu og mun halda áfram að efla félagið og sinna fjölmörgum viðskiptavinum Borgarplasts í matvæla- og byggingariðnaði af myndarbrag."

Borgarplast var stofnað í Borgarnesi árið 1971 og fagnar því 50 ára afmæli á árinu. Fyrirtækið framleiðir fiskiker og frauðkassa fyrir ferskan fisk, frauðeinangrun og ýmsar fráveitulausnir á borð við brunna, olíuskiljur og rotþrær. Í Mosfellsbæ rekur Borgarplast hverfisteypu fyrir fiskikör og er stærsti söluaðili einangraðra fiskikerja á Íslandi ásamt því að selja fiskiker til allra heimsálfa. Í Reykjanesbæ starfrækir fyrirtækið svo frauðverksmiðju.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×