Golf

Blótaði og braut kylfuna í bræðikasti

Sindri Sverrisson skrifar
Tyrrell Hatton var vægast sagt pirraður á Royal St George vellinum í Sandwich í dag.
Tyrrell Hatton var vægast sagt pirraður á Royal St George vellinum í Sandwich í dag. Getty og Skjáskot

Tyrrell Hatton á yfir höfði sér sekt eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu á Opna breska mótinu í golfi í dag. Hann er úr leik á mótinu.

Enski kylfingurinn átti slakt högg með fleygjárni þegar hann reyndi að koma sér inn á 18. flötina og lét reiði sína bitna á kylfunni, sem hann braut. „Þetta var útrás fyrir mikið svekkelsi,“ sagði Hatton sem er í tíunda sæti heimslistans.

Hatton heyrðist sömuleiðis blóta eftir að hafa klárað 11. holuna og fengið þar tvöfaldan skolla. „Ég átti gott teighögg en gat bókstaflega ekki komið kylfuhausnum beint á boltann,“ sagði Hatton en boltinn lenti illa fyrir aftan flötina.

Þar að auki virtist Hatton sýna einhverjum þeirra fjömörgu áhorfenda sem eru á mótinu fingurinn.

Hatton lauk leik á pari í dag en er samtals á tveimur höggum yfir pari, einu höggi fyrir neðan niðurskurðarlínuna.

Collin Morikawa og Jordan Spieth eru efstir sem stendur á -9 höggum. Morikawa átti stórkostlegan hring í dag og lék á -6 höggum en Spieth á eftir að spila sex holur.

Louis Oosthuizen, sem var efstur eftir fyrsta hring, er á -8 höggum eftir að hafa spilað 10 holur í dag.

Bein útsending frá mótinu er á Stöð 2 Golf en útsendingartíma má finna hér. Mótinu lýkur á sunnudag.


Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.