Viðskipti innlent

200 milljóna króna gjaldþrot Ostabúðarinnar á Skólavörðustíg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rekin var verslun undir merkjum Ostabúðarinnar á Skólavörðustíg frá árinu 2000 þar sem hægt var að fá hádegismat. Veitingastaður var svo opnaður árið 2015 og rekin til 2019 þar til hann fór í þrot.
Rekin var verslun undir merkjum Ostabúðarinnar á Skólavörðustíg frá árinu 2000 þar sem hægt var að fá hádegismat. Veitingastaður var svo opnaður árið 2015 og rekin til 2019 þar til hann fór í þrot. Ostabúðin

Skiptum í þrotabúi Þriggja grænna osta, sem rak veitingastaðinn Ostabúðina við Skólavörðustíg 8 frá 2015-2019, er lokið. Rúmlega sjö milljónir króna fengust greiddar upp í forgangskröfur.

Í Lögbirtingablaðinu í dag kemur fram að lýstar kröfur í búið hafi numið alls 204 milljónum króna. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 30. október 2019 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Jóhann Jónsson, sem átti 77% hlut í félaginu, sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í ágúst 2019 að rekstrarkostnaður hefði farið upp úr öllu valdi, sérstaklega launakostnaður.

Kokkar og þjónar væru með um 380-420 þúsund útborgað beint í vasann og hann þyrfti að greiða annað eins í launatengd gjöld. Þegar mest var hefði Jóhann haft átján manns í vinnu á tvöfaldri vakt.

Stoppa þyrfti útblástur veitingastaða í miðbænum og endurskoða skattstofna því rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja væri orðinn afar þungur.

„Þetta er bara vonlaust,“ sagði Jóhann.

Hann opnaði árið 2020 alhliða veisluþjónustu og fyrirtækjaþjónustu undir merkjum Ostabúðarinnar úti á Granda í Reykjavík. Þar er veislusalur sem tekur allt að 100 manns í sæti og 140 í standandi boð. Þá er einnig boðið upp á hádegishlaðborð alla virka daga.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.