Það eru liðnar þrjár vikur frá því Play fékk sína fyrstu þotu til landsins og tíu dagar frá fyrsta áætlunarfluginu. Í dag lenti vél frá þessu nýjasta flugfélagi Íslendinga í fyrsta sinn á flugvelli höfuðborgarinnar, en lendinguna mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.

Ekki var þó staldrað lengi við því eftir að fulltrúar Play og Kauphallarinnar sem og aðrir gestir höfðu stigið um borð var aftur haldið í loftið og stefnan tekin yfir hálendi Íslands. Í tólf þúsund feta hæð var svo hin hefðbundna bjölluhringing tekin upp, en það verður þó ekki fyrr en á föstudagsmorgun sem hlutabréfaviðskiptin hefjast formlega.

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, sagði að núna hefði Kauphöllin fengið vængi og tekið flugið. Úr yrði ógleymanleg tímamótaathöfn.
„Fyrsta skráningarathöfnin í háloftunum. Og með því fullkomnar Play þrennu á markaðnum á þessu ári. Það er að segja; það hafa verið skráningar það sem af er þessu ári í lofti, láði og legi,“ sagði Magnús.
Hlutafjárútboð Play þykir hafa heppnast vel en eftirspurnin reyndist áttfalt meiri en framboð hlutafjár.

„Við erum auðvitað bara ótrúlega glöð og hrærð yfir viðtökunum sem fyrirtækið er að fá. Frá fólki, frá ferðalöngum, fólki sem er að kaupa sér flugmiða til og frá Íslandi, og öllum þessum fjárfestum sem hafa trú á félaginu núna og ekki síst þessum gríðarlega fjölda af einstaklingum,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Um síðustu helgi fékk Play sína aðra þotu og sú þriðja er væntanleg eftir hálfan mánuð. Allar eru af gerðinni Airbus A321 með sæti fyrir 192 farþega hver.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: