Handbolti

Ellefu mörk Bjarka Más dugðu skammt gegn lærisveinum Guðmundar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bjarki Már skoraði ellefu mörk í dag.
Bjarki Már skoraði ellefu mörk í dag. picture alliance via Getty Images/Axel Heimken

36. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta kláraðist í dag. Þrír Íslendingar voru í eldlínunni.

Lemgo, lið Bjarka Más Elíssonar, fékk Melsungen, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, í heimsókn. Þar voru Melsungen sterkari aðilinn framan af og leiddu 17-14 í hálfleik. Þeirri forystu hélt liðið framan af síðari hálfleiknum en Lemgo tókst að jafna leikinn um hann miðjan í 24-24.

Nær komst Lemgo hins vegar ekki, og náði aldrei forystunni í síðari hálfleiknum. Melsungen endurnýjaði forystu sína og hélt henni allt til loka. Liðið vann leikinn með tveggja marka mun 30-28.

Bjarki Már Elísson skoraði ellefu mörk fyrir Lemgo í leiknum en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað hjá Melsungen. Melsungen fór með sigrinum upp í sjötta sæti með 40 stig, líkt og Leipzig sem er sæti neðar. Lemgo er hins vegar í áttunda sætinu með 39 stig.

Í níunda sæti er lið Göppingen, sem getur ekki hætt að tapa, með 38 stig, líkt og Wetzlar sem er sæti neðar. Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt mark fyrir lið Göppingen sem tapaði naumlega, 24-23, fyrir Minden í dag.

Kiel og Flensburg unnu bæði örugga sigra í dag en aðeins eitt lið skilur liðin að í toppbaráttunni þegar tvær umferðir eru eftir. Kiel er með 65 stig á toppnum en Flensburg með 64 stig í öðru sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×