Körfubolti

Kefl­víkingar geta skrifað sögu úr­slita­keppninnar í körfu­bolta í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingar hafa ekki tapað leik síðan í febrúar.
Keflvíkingar hafa ekki tapað leik síðan í febrúar. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík getur í kvöld orðið fyrsta liðið í sögu úrslitakeppni karla í körfubolta til að vinna sjö fyrstu leiki sína í úrslitakeppni. Ekkert lið í 37 ára sögu úrslitakeppninnar hefur byrjað úrslitakeppni á svo mörgum sigrum í röð.

Keflavík hefur sópað bæði Tindastól og KR í sumarfrí í fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar en Keflavíkurliðið hefur ekki tapað leik síðan 12. febrúar eða í 124 daga.

Alls er Keflavíkurliðið búið að spila átján leiki í röð í Domino´s deildinni án þess að tapa því liðið vann tólf síðustu leiki sína í deildarkeppninni.

Tvö önnur lið hafa byrjað úrslitakeppni á sex sigurleikjum. Snæfellingar náðu því fyrst vorið 2004 og KR-ingar léku það síðan eftir fimm árum síðar eða í úrslitakeppninni 2009. KR-liðið fór alla leið og varð Íslandsmeistari en Snæfell tapaði þremur síðustu leikjum úrslitakeppninnar á móti Keflavík.

Hér áður fyrr þurfti að vinna færri leiki í úrslitakeppninni til að verða Íslandsmeistari. KR varð þannig fyrsta liðið til að vinna fimm fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni 1990 en þá voru ekki fleiri leikir í boði.

Njarðvíkingar hafa einnig unnið þrjá Íslandsmeistaratitla án þess að tapa leik en þeir unnu alla fjóra leiki sína í úrslitakeppnunum 1984, 1986 og 1987.

Fyrsti leikur Keflavíkur og Þórs frá Þorlákshöfn hefst klukkan 20.15 í kvöld og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.30 og eftir leikinn verður síðan hann gerður ítarlega upp á sömu stöð.

  • Flestir sigurleikir í röð í upphafi úrslitakeppninnar:
  • 6 - Snæfell 2004 (tapaði leik 7 í lokaúrslitum á móti Keflavík)
  • 6 - Keflavík 2021
  • 6 - KR 2009 (tapaði leik 7 í lokaúrslitum á móti Grindavík)
  • 5 - Tindastóll 2015 (tapaði leik 6 í undanúrslitum á móti Haukum)
  • 5 - KR 2014 (tapaði leik 6 í undanúrslitum á móti Stjörnunni)
  • 5 - Grindavík 1997 (tapaði leik 6 í lokaúrslitum á móti Keflavík)
  • 5 - KR 1990 (Vann alla leikina sína í úrslitakeppninni)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.