Viðskipti erlent

Sektað um milljón evra fyrir að njósna um starfs­fólk

Atli Ísleifsson skrifar
Sannanir um athæfið komu fyrst fram árið 2012.
Sannanir um athæfið komu fyrst fram árið 2012. Getty

Dómstóll í Frakklandi hefur gert IKEA þar í landi að greiða eina milljón evra í sekt, um 150 milljónir króna, fyrir að hafa njósnað um starfsfólk á um tuttugu ára tímabili.

Fyrrverandi forstjóri IKEA í Frakklandi, Jean-Louis Baillot, var dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi, auk greiðslu 50 þúsund evra í miskabætur.

Í dómi kemur meðal annars fram að forsvarsmenn IKEA í Frakklandi hafi ráðið einkaspæjara og lögreglumenn til að safna saman persónulegum upplýsingum um starfsfólk fyrirtækisins. Sannanir um athæfið komu fyrst fram árið 2012.

Eftir að upp komst um málið voru fjórir framkvæmdastjórar reknir frá fyrirtækinu og ráðist í gerð nýrra siðareglna fyrir fyrirtækið.

Sigldu undir fölsku flaggi

Réttarhöld hófust í málinu í mars, en alls voru fimmtán manns á sakabekk í morgun, þeirra á meðal æðstu stjórnendur IKEA í Frakklandi og fyrrverandi framkvæmdastjórar einstakra verslana. Þar að auki var réttað yfir fjórum lögreglumönnum fyrir að hafa lekið trúnaðarupplýsingum til stjórnenda IKEA.

Erlendir fjölmiðlar greina frá því að stjórnendur IKEA hafi meðal annars fylgst með bankareikningum starfsfólks og notast við starfsmenn sem sigldu undir fölsku flaggi til að safna upplýsingum um aðra starfsmenn.


Tengdar fréttir

Ikea sakað um að njósna um starfsfólk og viðskiptavini

Réttarhöld yfir dótturfyrirtæki Ikea í Frakklandi og fyrrverandi stjórnendum þess hefjast í dag. Fyrirtækið og stjórnendurnir eru sakaðir um að hafa notað gagnagrunn lögreglu til þess að njósna um starfsfólk sitt og viðskiptavini um marga ára skeið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×