Fyrir kaupin átti Nova hf. meirihluta hlutafjár í Aur en aðrir hluthafar voru meðal annars Borgun hf., Social ehf. og Sverrir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri Aurs.
Kaupin gengu í gegn síðasta mars og er greint frá þeim í uppgjöri Kviku banka fyrir fyrsta ársfjórðung. Markaður Fréttablaðsins greindi frá uppgjörinu í dag.
Aur er með um 90 þúsund virka notendur en appið var upprunalega stofnað til að fara í samkeppni við banka landsins. Ári síðar stofnaði Íslandsbanki appið Kass, sem gegnir sama hlutverki og Aur en það hefur ekki náð eins miklum vinsældum.
Í samtali við Markaðinn sagði Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, að kaupin á Aur væru hluti af þeirri vegferð að gera bankann „ósýnilegan“.