Viðskipti innlent

Sala nýrra fólks­bíla jókst um 159 prósent og bílaleigur tóku við sér

Eiður Þór Árnason skrifar
Innflutningur á nýjum bílum færist í aukanna. 
Innflutningur á nýjum bílum færist í aukanna.  Vísir/Vilhelm

Sala nýrra fólksbíla jókst um tæp 159% hér á landi í maí samanborið við sama tíma í fyrra. Nýskráningum fjölgaði um 24,9% milli ára á fyrstu fimm mánuðum ársins og fara úr 3.369 í 4.208.

Þetta kemur fram í samantekt Bílgreinasambandsins. Af þeim 1.338 fólksbílum sem voru nýskráðir í maí voru 460 seldir til einstaklinga og nam 24,3% aukningu milli ára. Það sem af er ári hafa selst 2.100 nýir fólksbílar til einstaklinga samanborið við 2.014 í fyrra.

Sala til ökutækjaleiga tók við sér í maí og seldust 750 nýir fólksbílar til slíkra fyrirtækja samanborið við 47 á sama tíma í fyrra. Á fyrstu fimm mánuðum ársins hafa verið skráðir 1.310 nýir fólksbílar í ökutækjaleigu samanborið við 628 bíla í fyrra og er því aukning í sölu fólksbíla til ökutækjaleiga 108,6%.

KIA hreppti vinninginn í maí

Nýorkubílar, á borð við rafmagns-, tengiltvinn-, hybrid-, metanbíla, eru 62,4% allra seldra nýrra fólksbíla á þessu ári en hlutfallið var rétt tæplega 60% á sama tímabili í fyrra. 21,2% nýskráðra fólksbíla það sem af er ári eru rafmagnsbílar, 24,3% tengitvinnbílar og 16,94% hybrid.

Í maí var KIA mest selda tegundin með 239 selda fólksbíla. Þar á eftir kemur Toyota með 225 selda fólksbíla og Suzuki með 166 nýskráða fólksbíla.

Almenn fyrirtæki, að ökutækjaleigum undanskildum, keyptu 123 nýja fólksbíla í maí en 97 í fyrra. Það sem af er ári hafa selst 776 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja og fjölgar þeim um 11% milli ára.

Fréttin hefur verið uppfærð með leiðréttum tölum úr maímánuði eftir að Bílgreinasambandið gerði grein fyrir villum í samantekt sinni sem fréttin byggði á. Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að hlutfall nýorkubíla hafi lækkað milli ára en svo reyndist ekki vera. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×