Körfubolti

Arnar: Það er gott að vera kominn yfir en það skiptir engu ef við töpum 3-1

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Guðjónsson var virkilega feginn að vera kominn 1-0 yfir í einvíginu.
Arnar Guðjónsson var virkilega feginn að vera kominn 1-0 yfir í einvíginu.

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var virkilega ánægður í leikslok eftir að lið hans tók forystuna í undanúrslitaeinvíginu gegn Þór frá Þorlákshöfn. Lokatölur 90-99 en Arnar segir að sigurinn skipti engu máli ef lið hans fylgi honum ekkki eftir.

„Allur leikurinn var bara vel útfærður,“ sagði Arnar að leik loknum. „Þetta er hrikalega erfitt lið og gott að vinna en bara áfram gakk, það er 1-0.“

„Þeir skoruðu ekki 110 stig, var það ekki talan sem ég talaði um fyrir leik?“ sagði Arnar aðspurður um hvað hefði skilað sigrinum.

„Þetta er bara hrikalega erfitt lið og mér fannst Larry bara aldrei klúðra skoti í kvöld. En ég er bara feginn að hafa unnið. Þetta tók mikið úr okkur og nú er bara að fara heim og ná góðri endurheimt.“

Stjarnan tapaði 14 boltum í leiknum í kvöld og Arnar segir að liðið þurfi að gera einfaldari hluti í næsta leik til að fækka þeim.

„Við þurfum bara að fara í Óla Jóh fræðin í næsta leik. Bara blár sendir á bláan og höfum þetta einfalt. Við þurfum að gera það á heimavelli.“

Flestir telja það mikilvægt að vinna fyrsta leikinn í svona einvígi, og þá sérstaklega að taka forystuna á útivelli. Arnar segir þetta í raun ekki skipta neinu máli ef þeir fylgja þessu ekki eftir.

„Nú þurfum við bara tvo sigra og þeir þurfa þrjá. Það í rauninni breytir engu. Við þurfum bara að halda áfram og reyna að sækja næsta sigur.“

„Þetta er erfitt lið og þetta verður erfið sería. Það er gott að vera kominn yfir en það skiptir engu ef við töpum 3-1,“ sagði Arnar að lokum.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×