Innlent

Ítarlegir álagningarseðlar aðgengilegir á skattur.is

Hólmfríður Gísladóttir skrifar

Nýir og breyttir álagningarseðlar eru nú aðgengilegir á vefnum skattur.is en á þeim má sjá á myndrænan hátt hvernig sköttum sem lagðir eru á tekjur einstaklinga er skipt á milli ríkis og sveitarfélaga og í hvaða málaflokka þeir renna.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins en þar segir að markmiðið sé að auka gagnsæi. „Þannig fá skattgreiðendur nú yfirlit um hve háa fjárhæð þeir reiddu af hendi til heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, samgöngumála o.s.frv., en stefnt er að því að í framtíðinni geti skiptingin orðið enn ítarlegri.“

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra að mikilvægt sé að skattreiðendur hafi sem skýrasta mynd af því hvert fjármunirnir renna og í hvaða hlutföllum. Um nokkurra ára skeið hefur verið hægt að sjá hvernig greiðslurnar skiptast milli ríkis og sveitarfélaga.

„Nú göngum við skrefi lengra, en með skýrri sundurliðun á málaflokka eykst bæði aðhald þegar kemur að ráðstöfun almannafjár og á sama tíma tilfinning fólks fyrir því að þeirra framlag skipti máli. Fyrr en síðar vonast ég svo til þess að við getum gengið enn lengra, þannig að jafnvel verði hægt að skoða skiptinguna niður á einstaka stofnanir,” er haft eftir Bjarna.

Skattur.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×